26.10.2006 21:42

Fimmtudagur, 26. 10. 06.

Sjá vísan á Kosningablað mitt hér til hægri, þar sem vísað er til prófkjörsins.

Var klukkan 16.00 í Sjóminjasafni Reykjavíkur, þar sem stofnuð voru Hollvinasamtök varðskipsins Óðins en markmið þeirra er að skipið verði hluti af sjóminjasafninu og fluttum við ávörp af því tilefni Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, sem stjórnaði fundinum, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður safnsins, en skipinu mætti leggja við hlið safnsins og ganga um borð í það beint úr safninu.

Fór síðan á kosningaskrifstofu mína og hitti nokkurn fjölda fólks, sem kom þangað til að ræða við mig og leggja á ráðin um prófkjörið en kosið verður á morgun og laugardag.

Mér berast víða að kveðjur og ég heyri að kosningabæklingi mínum er vel tekið. Ógerningur er að gera sér grein fyrir því, hver úrslitin verða en ég tel augljóst af umræðunum, að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins yrði það sérstakt fagnaðarefni, ef unnt yrði að túlka þau á neikvæðan veg fyrir mig.

Liður í baráttu andstæðinga Sjálfstæðisflokksins hefur verið rakalaus málflutningur þeirra um skjöl tengd hlerunum á tíma kalda stríðsins í Þjóðskjalasafninu. Í dag tilkynnti safnið, að allur almenningur gæti skoðað þessi skjöl á vefsíðu safnsins. Ég fagna þessari ákvörðun, því að ég hef lengi verið málsvari þess, að gögn af þessu tagi yrðu opin öllum.

Þegar þessi gögn eru skoðuð í samanburði við það, sem lá að baki rannsókn á vegum norska stórþingsins á hlerunum í Noregi á vegum nokkurra opinberra stofnana, sést enn betur en áður, hvílík firra það er að bera þessi mál saman og krefjast þess, að sérstök þingnefnd skoði þessi mál hér á landi.

Það ber að harma, að Þjóðskjalasafnið skuli ekki hafa birt þessi gögn jafnskjótt og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fékk aðgang að þeim. Með því hefði verið unnt að forða þjóðinni frá langvinnum umræðum um þetta mál, sem notað hefur verið til að sverta minningu látinna manna og brigsla öðrum um óheilindi og blekkingariðju. Í raun er óskiljanlegt, hvernig unnt var að komast að þeirri niðurstöðu, að Guðna Th. væri einum heimilt að skoða þessi gögn eða hann léti eins og hér væri um eitthvert mikið órannsakað mál að ræða.