22.10.2006 21:48

Sunnudagur, 22. 10. 06.

Frá klukkan 14.00 og fram yfir 18.00 var ég í kosningaskrifstofu minni að Skúlagötu 51 og þangað var stöðugur straumur gesta allan daginn. Var fróðlegt að ræða við allt hið góða fólk, sem kom til að lýsa yfir stuðningi og ræða málið.

Ýmsir höfðu horft á Silfur Egils fyrr um daginn og höfðu á orði, að Jón Baldvin Hannibalsson hefði ekki aukið við hróður sinn með því, sem hann hafði þar fram að færa. Það sé til dæmis með ólíkindum, ef þáverandi utanríkisráðherra landsins grunaði, að sími hans væri hleraður af Bandaríkjamönnum, að hann skyldi ekki hafa aðhafst neitt í málinu og geri það ekki fyrr en meira en áratug síðar.

Mig undrar ekki, að fólk reki í rogastans, þegar þetta er borið á borð fyrir það, og síðan reyni Jón Baldvin nú að nota þetta tilvik til að koma höggi á pólitíska andstæðinga heima fyrir, af því að hann hafi ekki vitað á þessum árum, að starfandi væri „leyniþjónusta.“ Ég tek undir með þeim, sem segja þetta dæmalausan málflutning.

Í kvöldféttum sjónvarpsins sagðist Jón Baldvin aldrei hafa beint máli sínu til mín en fyrir rúmri viku, þegar hann var í Kastljósi sagði hann þetta gamla hlerunarmál, sem hann hefur verið að spinna, vera viðfangsefni dómsmálaráðherra - eftir að ríkissaksóknari ákvað að láta málið til sín taka, breyttist þessi afstaða Jón Baldvins og hann tók að ræða um rannsóknir vegna framgöngu jafnaðarmanna, flokksbræðra hans í Noregi!

Viðbrögð Jóns Baldvins við fræðilegri úttekt Þórs Whiteheads á þessum málum öllum staðfesta betur en nokkuð annað, að hann hefur enga burði til að ræða þessi mál með rökum eða á efnislegum grunni. Á mbl.is segir, að Jón Baldvin hafi sagt í Silfri Egils að Þór „sé fóstbróðir Björns Bjarnasonar“ og hafi í  grein í Þjóðmálum „verið að undirbúa farveginn fyrir frumvarp Björns um öryggisgæslu.“ Ætli Jón Baldvin telji, að með svona tali geti hann afgreitt sagnfræðiprófessor, af því að niðurstöður rannsókna hans stangast á við órökstuddar fullyrðingar hans sjálfs? Ef þetta er ekki til marks um ómerkilega málafylgju, hvað er það þá?

Ásbjörn Sveinbjörnsson, einn gesta minna í dag, gaf mér þessa vísu:

Manninn Björn met ég mest

mínum bregst ei vonum

en hann mun reynast okkur best

ef við fylgjum honum.