17.10.2006 8:55

Þriðjudagur, 17. 10. 06.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 eins og venjulega á þriðjudögum. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir ákvörðun sinni um að heimila veiðar á 9 langreyðum og 30 hrefnum, en hún leiddi til þess, að Hvalur 9 lét úr höfn og hélt á miðin að kvöldi þessa sama dags eftir um 20 ára bið eftir leyfi til veiða.

Þegar saga þessa 20 ára hlés á hvalveiðum verður skrifuð, eiga menn eftir að undrast ákvörðunina um úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu í upphafi tíunda áratugarins. Ég studdi hana ekki á alþingi og taldi hana alranga - hið eina sem í raun gæti réttlætt hana, væri að við færum aftur í ráðið með fyrirvara vegna hvalveiðibannsins, sem við höfðum samþykkt, það er að við segðum okkur undan banninu við inngöngu í ráðið að nýju. Þetta gekk eftir og án þess hefðum við enga alþjóðlega réttarstöðu til að stíga þetta skref í dag, hvað sem segja má um það að öðru leyti. 

Til að halda lífi í hlerunarumræðunum hóf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir máls á hlerunum í upphafi þingfundar í dag. Nú er línan sú, að Norðmenn hafi skipað þingnefnd til að leita sátta þar í landi, eftir að upplýst var, að Verkamannaflokkurinn hefði haldið leynilega skrá yfir andstæðinga sína. Svo virðist sem stjórnarandstaðan hafi sannfært sjálfa sig um, að eitthvað svipað hafi gerst hér og á grundvelli þeirrar sjálfsblekkingar sé nauðsynlegt að feta í fótspor Norðmanna við að upplýsa málið. Þetta byggist aðeins á ríku hugmyndaflugi en alls engum staðreyndum og er enn til marks um ógöngur stjórnarandstöðunnar í málinu.

Ég vakti máls á því hér í dagbókarfærslu í gær, hve ómaklegt væri að líta þannig á, að ríkissaksóknara, sjálfstæðum embættismanni, væri ekki treyst til að rannsaka fullyrðingar Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um að símar þeirra hafi verið hleraðir. Í umræðunum á alþingi rifjaði ég það upp, að við afgreiðslu lögreglulaga 1996 fann Össur Skarphéðinsson, núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að því, að í lögunum væri gert ráð fyrir því, að lögreglan rannsakaði sjálf meint brot lögreglumanna í starfi. Össur sagði meðal annars:

 

„Er ekki betra fyrir alla aðila, bæði þá sem lenda í því að fá slíka kæru á sig og fyrir lögregluliðið í heild að tekið verði með einhverjum hætti öðrum á þessu, t.d. að slík mál yrðu falin forsjá ríkissaksóknaraembættisins sem tæki þá ákvörðun um það hvernig ætti að vinda málunum fram og rannsaka þau til hlítar.“

Árið 1998 var gerð breyting á lögreglulögum og var allsherjarnefnd þá sammála um að leggja til þá breytingu, sem nú er í lögum, að ríkissaksóknari færi með rannsókn mála þar sem hugsanlegt væri að lögreglumenn hefðu brotið af sér.

Í umræðum sagði Bryndís Hlöðversdóttir, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar:

„Eins og fram kom hjá framsögumanni nefndarinnar, hv. þm. Árna R. Árnasyni, þá hefur hv. allshn. nú þegar brugðist við þeirri gagnrýni sem kom fram á þetta ákvæði frv. með því að leggja til að kæru á hendur lögreglumanni fyrir meint refsivert brot skuli beina til ríkissaksóknara og tel ég þá breytingu til bóta“

Mér er óskiljanlegt, hvernig talsmenn Samfylkingarinnar geta nú látið eins og það sé þeim síst að skapi, að ríkissaksóknari ákveði að rannsaka réttmæti þeirra alvarlegu fullyrðinga, að símar starfsmanna utanríkisráðuneytisins hafi verið hleraðir og það af innlendum aðilum eins og Árni Páll Árnason hefur sagt - og að rökin fyrir andstöðu þeirra séu þau, að lögreglan eigi ekki að rannsaka sjálfa sig. Á hinn bóginn er þetta þó kannski ekki neitt skrýtið miðað við annað í öllu ruglinu vegna stóra hleranamálsins.