Varaformaður í villu
Frumvarpið sem kennt er við bókun 35 hróflar ekki á nokkurn hátt við bókuninni. Í frumvarpinu felst breyting á lögum sem alþingi setur og getur ávallt breytt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, birtir grein í Morgunblaðinu í dag. Þar sannast hve afvegaleiddar umræðurnar um breytingarnar á EES-lögunum frá 1993 eru.
Það voru furðuleg og vanhugsuð mistök hjá utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytinu á sínum tíma að kenna þessa breytingu á íslenskum lögum við bókun 35 við EES-samninginn. Vissulega var 3. gr. laganna samþykkt á sínum tíma til að framfylgja EES-samningnum og bókunum við hann. Bókun 35 felur í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslandi ber að fullnægja.
Í ljós hefur komið að 3. gr. EES-laganna gerir það ekki að mati Hæstaréttar Íslands. Frumvarp utanríkisráðherra miðar að því að lögfesta nýja lögskýringarreglu til að bæta réttarstöðu þeirra sem lúta lögsögu íslenskra dómstóla.
Nú hefur hæstiréttur til meðferðar mál gegn íslenska ríkinu þar sem þess er krafist að ríkið greiði skaðabætur vegna þess að gengið sé á rétt einstaklings þar sem hann njóti ekki þeirra réttinda sem EES-samningurinn á að veita.
Frumvarpið sem kennt er við bókun 35 hróflar ekki á nokkurn hátt við bókuninni. Í frumvarpinu felst breyting á lögum sem alþingi setur og getur ávallt breytt.
Á sínum tíma samþykkti alþingi að EES-lögin féllu innan stjórnarskrárinnar. Sé alþingi með þeirri breytingu sem nú er boðuð að brjóta gegn stjórnarskránni getur hæstiréttur ógilt lagagreinina. Frumvarpið brýtur á engan hátt gegn fullveldi íslenska ríkisins. Það er hins vegar til þess fallið að auka fullveldi þeirra borgara sem lúta íslenskri lögsögu, gera þeim kleift að njóta réttinda sem EES-samningurinn færir þeim.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir (mynd: mbl.is).
Samt gengur varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra fram fyrir skjöldu vegna þessa lagafrumvarps og segir að bókun 35 gangi „gegn íslenskri lýðræðishefð“. Í henni felist „afsal á löggjafarvaldi“ og „innleiðing bókunar 35 [sé] ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins“.
Þarna er talað eins og nú eigi að innleiða þessa bókun sem gert var með EES-samningum sem tók gildi 1. janúar 1994. Þrátt fyrir þá staðreynd segir varaformaður Framsóknarflokksins 7. október 2025:
„Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.“
Varaformaðurinn hefur starfað sem utanríkisráðherra undir bókun 35 án þess að hreyfa legg eða lið. – Hvíldi „yfirþjóðlegt vald“ svona þungt á henni þá? Nú segir hún: „Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína...“
Þessi málflutningur lýsir algjörri vanþekkingu á frumvarpinu sem liggur fyrir alþingi. Hann er greinilega reistur á öðru en virðingu fyrir viðfangsefni alþingismanna nú sem er að breyta íslenskum lögum til að bæta réttarstöðu íslenskra borgara