Heim frá Madeira
Nú er fjölþátta stríðið að verða sýnilegra en áður. Spurning er hvenær svo verður á Atlantshafseyjunum, jafnvel Madeira.
Madeira er portúgalskur eyjaklasi í Norður-Atlantshafi, um 1.000 km suðvestur af Lissabon og 700 km norður af Kanaríeyjum. Eyjarnar eru um 801 ferkílómetri að flatarmáli. Stærsta eyjan er Madeira sjálf, og þar býr langstærstur hluti íbúanna. Íbúafjöldinn er um 250 þúsund.
Madeira er sjálfstjórnarsvæði innan Portúgals með eigin þing og ríkisstjórn, en lýtur þó stjórnarskrá og lögum Portúgals og sendir fulltrúa á portúgalska þingið. Höfuðborgin er Funchal.
Eyjaklasinn nýtur milds loftslags allt árið, sem hefur gert Madeira að vinsælum ferðamannastað og mikilvægri miðstöð víngerðar og verslunar. Árið 2024 komu um 2,2 milljónir ferðamanna til eyjanna, flestir með flugi, en einnig með skemmtiferðaskipum sem leggja reglulega að í Funchal. Um flugvöllinn á Madeira fóru um 4,8 milljónir farþega það ár. Aðalvöruflutningahöfn eyjanna er í Caniçal austast á Madeira, þar sem gáma- og olíuflutningaskip athafna sig en höfnin í Funchal sinnir nú einkum farþega- og skemmtiferðaskipum.
Við hótelið að morgni 23. september 2025.
Við kveðjum Madeira í dag, 23. september, og höldum heim til Íslands í beinu flugi Play. Ferðin með MR-64 árganginum hefur verið ánægjuleg að þessu sinni eins og fyrri ár enda er um góðan og stundvísan ferðahóp að ræða.
Fyrir um 40 árum sótti ég hér ráðstefnu um öryggismál á Atlantshafi. Richard Pipes, kunnur bandarískur prófessor, var meðal ræðumanna en hann var þá í ráðgjafahópi Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta um sovésk málefni.
Forsætisráðherra Madeira spurði Pipes hvaða skoðun menn í Washington hefðu á hernaðarlegu gildi Madeira. Prófessorinn svaraði, kannski ekki nógu diplómatískt, að líklega vissu menn í Washington hreinlega ekki um tilvist Madeira. Breskur blaðamaður í hópnum sagði frá þessum orðaskiptum á ráðstefnunni undir fyrirsögninni: Kunnur bandarískur prófessor slær forsætisráðherra Madeira utan undir.
Eyjar í Atlantshafi hafa allar sitt gildi en að dveljast hér í nokkra daga fjarri heimsins glaumi er hvíld í sjálfri sér þótt hann sé alltaf nálægur í öllum miðlum.
Margt bendir til þess að Rússar hafi ákveðið að beita fjölþátta hernaði sérstaklega gegn farþegaflugi og ferðamönnum. Ráðist var á tölvukerfi innritunarfyrirtækis á stórum flugvöllum í London, Berlín, Brussel og jafnvel Dublin á Írlandi sem telur sig hafa fundið stað fjarri heimsins vígaslóð. Síðan sáust drónar yfir Kastrup við Kaupmannahöfn og Gardemoen við Osló. Áður hafði rússneskum orrustuþotum verið flogið í 12 mínútur innan lofthelgi Eistlands.
Eistneski varnarmálaráðherrann sagði að fyrir utan almenna þörf fyrir að ögra öðrum væri markmið Rússa með þessu að minna almenna borgara á að stjórnvöld þeirra ættu frekar að verja fé til heimavarna en til varnar Úkraínu.
Í raun fellur þetta hvort tveggja saman.
Nú er fjölþáttastríðið að verða sýnilegra en áður. Spurningin er hvenær svo verður á Atlantshafseyjunum, jafnvel Madeira.