4.9.2025 11:29

Rökþrot í öryggismálum

Það eru einfaldlega engin rök fyrir því að við framseljum vald og afsölum okkur fullveldi með aðild að ESB til að auka öryggi þjóðarinnar.

Hér var í gær farið í saumana á málflutningi ESB-aðildarsinna um að vegna óvissu og öryggisleysis á alþjóðavettvangi eigi að vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Færð voru rök fyrir því að aðild að sambandinu breytti engu í þessu efni fyrir okkur. Við ættum þegar það samstarf við Evrópuríki sem dygði okkur best, aðild að ESB yki öryggi okkar ekki á neinn hátt.

Það eru einfaldlega engin rök fyrir því að við framseljum vald og afsölum okkur fullveldi með aðild að ESB til að auka öryggi þjóðarinnar.

B69f50c8b1d9f01c511976f859491a27_1756899618_extra_largeÞað er enn til marks um hve náið samstarf við eigum með Evrópuþjóðum í öryggismálum að 3. september sat Kristrún Frostadóttir fund með Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta og leiðtogum norrænu- og Eystrasaltsríkjanna í Kaupmannahöfn (mynd forsætisráðuneytið).

Í lok dagbókarpistilsins hér í gær var vitnað í grein eftir Magnús Árna Skjöld Magnússon, formann Evrópuhreyfingarinnar, sem sagði á Vísi 1. september: „En atburðir undanfarinna mánaða, eftir valdaskiptin í Bandaríkjunum í janúar, hafa orðið til þess að ástæða er til að huga að því hvort að þessir þættir duga að fullu til að tryggja öryggi okkar sem fullvalda þjóðar, sem vill búa við lýðræði og mannréttindi.“

Þegar ég kynnti pistilinn minn á Facebook í gær sagði ég: „Að ætla að hræða Íslendinga til ESB-aðildar með tali um auknar öryggistryggingar er dæmt til að mistakast.“

Hafði ég þar í huga ofangreind orð formanns Evrópuhreyfingarinnar. Þau og það sem á eftir þeim kom í grein hans á Vísi verður ekki skilið á annan veg en þann að staða okkar sem fullvalda þjóðar verði aðeins tryggð með aðild að ESB.

Fyrir utan að röksemd formannsins um aukið öryggi okkar með aðild að ESB stenst ekki skoðun er hitt stórundarlegt að hann skuli nota orðið fullveldi í þessu samhengi. Ísland verður ekki aðili að ESB án þess að stjórnarskrá lýðveldisins verði breytt til að heimila framsal á fullveldi til yfirþjóðlegra stofnana ESB.

Þess hefði mátt vænta að ESB-aðildarsinnar bentu á veikleika í röksemdafærslu minni. Því er þó ekki enn að heilsa. Úr hópi þeirra tók Einar Stefánsson, prófessor emeritus, til máls og sagði: „Ósköp er nú smátt að tala um hræðsluáróður á þessum miklu óvissutímum sem við lifum. Þjóðaröryggi okkar og margra fleiri er í meiri hættu en nokkurn tíma á minni ævi og full ástæða til að íhuga alla kosti af alvöru.“

Ég svaraði og sagðist hvergi hafa notað orðið hræðsluáróður í pistli mínum. Orðið hefði ekki verið mér í huga þegar ég skrifaði pistilinn. Ég hefði búist við að Einar ræddi röksemdir mínar og benti á veikleika þeirra. Í stað þess væri gripið til innantómra slagorða og gert lítið úr málefnalegum sjónarmiðum.

Einar svaraði: „Að ætla að hræða Íslendinga til ESB aðilda…”. Er þetta ekki ásökun um hræðsluáróður?“ Ég svaraði því neitandi og sagði boðskap hans, sem ég vitna til hér að ofan, frekar í þeim anda að ala á ótta fólks. Ég hefði bent á að nú þegar hefði verið stofnað til samstarfs við ESB-ríki til að efla öryggi okkar.

Ég birti þetta hér til að sýna hve þungt er undir fæti þegar bent er á að greining á málefnum eigi að ráða afstöðunni til ESB-aðildar. Ef sögnin að hræða er bannorð í lýsingu á málflutningi ESB-aðildarsinna og talin til marks um að lágt sé lagst er vandlifað.

Það blasir við að ekkert málefni kallar á að ESB-aðild sé sett á dagskrá.