Orrustan um Kárhól
Forsaga samningsins við Kínverja um Kárhól tengist tilraunum kínverska auðjöfursins Huangs Nubos árið 2011 til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og þar með 300 ferkílómetra lands.
Norðurslóðasetrið svonefnda sem Kínverjar eiga aðild að og er til húsa á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit, skammt frá þéttbýlinu Laugum, stendur nú á tímamótum þar sem eigandi hússins, Aurora Observatory, sjálfseignarstofnun í eigu atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi eystra, er í vanskilum við Byggðastofnun vegna 180 m. kr. láns.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði á alþingi 30. júní 2023 að íslensk stjórnvöld hefðu ekki beina aðkomu að rekstri rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli. Tilurð hennar mætti rekja til rammasamnings um samstarf á norðurslóðum sem undirritaður var af utanríkisráðherrum Íslands [Össuri Skarphéðinssyni] og Kína árið 2012. Grundvöllur fyrir rannsóknamiðstöðinni væri rammasamningur milli Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands um rannsóknamiðstöðina China Iceland Arctic Observatory frá 2013.
Í frétt Morgunblaðsins í dag (8. ágúst) um kröfu Byggðastofnunar um nauðungarsölu á Kárhóli kemur fram að þinglýstrar kvaðar í leigusamningi Aurora Observatory við kínverska félagið Polar Research Institute of China um að veðsetning jarðarinnar og fasteigna á henni sé óheimil án samþykkis kínverska leigjandans sé ekki getið í þinglýsta skuldabréfinu sem nú er í innheimtu. Er látið að því liggja í fréttinni að þetta kunni að skapa Byggðastofnun vandræði við innheimtu skuldar sinnar.
Forsaga samningsins við Kínverja um Kárhól tengist tilraunum kínverska auðjöfursins Huangs Nubos árið 2011 til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og þar með 300 ferkílómetra lands. Naut hann til þess stuðnings áhrifamanna í Samfylkingunni. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist hafa leikið á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til að hindra sölu landsins til Huangs.
Þessi mynd af kínverska auðjöfrinum Huang Nubo í Hörpu birtist í Morgunblaðinu í nóvember 2011 þegar hann taldi 80% líkur á að hann eignaðist Grímsstaði á Fjöllum.
Í blekkingarskyni var látið eins og fyrirhuguð landakaup Huangs væru jafnvel án vitundar kínverskra yfirvalda. Þau lýstu síðan áhuga á aðstöðu á Norðausturlandi og þá var stofnað til samstarfs sveitarfélaga um að nýta jörðina Kárhól og reisa þar hús yfir kínverska vísindastarfsemi sem síðan hefur verið lítið meira en nafnið tómt, megi marka fréttir.
Sé kínverskum yfirvöldum mikið í mun að hafa hér tangarhald á landi er ekki ólíklegt að sendiráð þeirra í Reykjavík beiti einhverjum ráðum til að tryggja Kínverjum áfram aðgang að Kárhóli.
Ýmsar leiðir eru færar í því skyni, diplómatískar og með fjármunum. Eins og jafnan áður í þessu langa ferli kínverskra landvinninga á þessum slóðum reynir nú á staðfestu íslenskra stjórnvalda.
Allt önnur viðhorf eru nú í þjóðaröryggismálum og viðhorfum til kínverskra umsvifa á norðurslóðum en voru árið 2012. Fyrir liggur að engin þjóðaröryggissjónarmið voru höfð til hliðsjónar við upphaf þessa samstarfs. Vakti það umræður utan landsteina. Lá það orð á íslenskum stjórnvöldum og liggur jafnvel enn að þau sýni ekki næga aðgæslu gagnvart ásókn kínverskra yfirvalda. Nú gefst tækifæri til að reka af sér slyðruorðið.