Valkvíði vegna frambjóðendafjölda
Að velja á milli tólf einstaklinga getur leitt til valkvíða og því fyrr sem honum er vikið til hliðar með ákvörðun þeim mun betra.
Nú dregur að því að menn verði að gera upp hug sinn og taka afstöðu til forsetaframbjóðendanna. Að velja á milli tólf einstaklinga getur leitt til valkvíða og því fyrr sem honum er vikið til hliðar með ákvörðun þeim mun betra. Vissulega kann eitthvað að gerast á lokadögum kosningabaráttunnar sem breytir ákvörðun sem tekin er núna en þá er unnt að taka nýja áður en farið er í kjörklefann. Það má líka innkalla utankjörstaðaratkvæði og ógilda það sé greitt atkvæði á kjördag.
Ísland er eina landið í Evrópu þar sem forseti er kjörinn af þjóðinni í einni umferð fyrir utan Bosníu-Herzegóvínu, þar sem aðstæður eru allt aðrar en hér. Þegar gengið er til atkvæða í tveggja umferða kerfi er sagt að í fyrri umferðinni sé kosið með hjartanu en heilanum í þeirri síðari. Hér hljóta kjósendur að leggja á það kalt mat með heilanum hvort þeir ætli að kasta atkvæði sínu á glæ með því að kjósa einhvern sem á örugglega enga von um að sigra eða velja einhvern þeirra sem skipa sér í fremstu röð samkvæmt könnunum.
Um atkvæði af þessum toga hljóta þeir sem eru efstir undir lok baráttunnar að takast. Þau ráða að líkindum úrslitum.
Í blöðum og á öðrum vettvangi er lagt mat á frambjóðendur og sumir skýra frá því sem leiðir til þess að þeir geti ekki stutt þennan eða hinn. Þetta gerði til dæmis Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands, á Facebook-síðu sinni 20. maí. Hann styður Helgu Þórisdóttur í kosningunum og segir réttilega að hún sé „ótrúlega öflugur embættismaður sem hefur rækt starf sitt í þágu íslensks almennings af kostgæfni“.
Um Katrínu Jakobsdóttur segir Páll Torfi:
„Katrín Jakobsdóttir. Þetta er klár kona og frambærileg en hefur skrýtið siðferði sbr. að konur eigi rétt á að láta gera fóstureyðingu til 40. viku (loka meðgöngu). Að auki situr ríkisstjórnin hennar enn við völd og hefur sitthvað óhreint í pokahorninu (t. d. bókun 35) sem ég treysti ekki að Katrín muni stöðva. Þar tapaði hún mínu atkvæði.“
Hér verður ekki fjallað um skoðun Katrínar á fóstureyðingum en hún segist fara þar að íslenskum lögum. Að því er varðar bókun 35 er nauðsynlegt að leiðrétta Pál Torfa og endurtaka það sem hefur verið áður sagt hér á þessum stað:
Bókun 35 hefur gilt hér á landi í 30 ár. Ríkisstjórn Katrínar hefur ekkert um efni bókunarinnar að segja. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur hins vegar gagnrýnt framkvæmd íslenskra dómstóla á henni. Hæstiréttur hefur orðið tvísaga í túlkun sinni en heldur sig nú við þá niðurstöðu að EES-samninginn sé ekki unnt að framkvæma hér á þann veg að Íslendingar njóti þess réttar sem þeim ber samkvæmt EES-samningnum. Fyrir skömmu féll dómur í hæstarétti í máli læknis sem fékk ekki fullar fæðingarorlofsbætur samkvæmt EES-rétti sínum vegna þessara vankanta á íslenskri löggjöf. Fyrir alþingi var í fyrra lagt frumvarp um lögskýringarreglu til að leiðrétta þessa misfellu. Efni þessa frumvarps hefur verið afflutt, meðal annars af Arnari Þór Jónssyni forsetaframbjóðanda.