15.5.2024 11:44

Halla Hrund í Argentínu – Isavia í Kína

Augljóst er af öllu að Argentínuferð Höllu Hrundar dregur engan dilk á eftir sér í samskiptum Íslands og Argentínu. Ferðin hefur hins vegar orðið hluti af kosningabaráttu hér. 

Eitt af því sem fram kom í samtali Stefáns Einars Stefánssonar við Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðanda í þætti hans Spursmál á mbl.is var að í fyrra hefði hún sem orkumálastjóri ritað undir viljayfirlýsingu milli Íslands og Argentínu um samvinnu um endurnýjanlega orku og loftslagsmál.

1483672Halla Hrund Logadóttir í Spursmáli á mbl.is

Í frétt á ruv.is segir í dag (15. maí) að vegna þessa máls hafi Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, átt fund með Stefáni Guðmundssyni, starfsbróður sínum í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Fann Martin að því að utanríkisráðuneytið hefði ekki verið upplýst um Argentínuferðina og fund Höllu Hrundar með utanríkisráðherra Argentínu.

Í fréttinni segir að Stefán, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, hafi fundað með Höllu Hrund og sent henni bréf um að þótt hlutverki orkumálastjóra fylgi víðtækt alþjóðlegt samstarf á sviði orkumála sé það hins vegar hlutverk umhverfisráðuneytisins að annast samskipti við ráðuneyti erlendra ríkja og taka ákvarðanir um viljayfirlýsingar er lúta að samstarfi við þau. Ráðuneytið hafi ekki veitt samþykki við ferð Höllu Hrundar og ekki vitað af fundum hennar eða viljayfirlýsingunni fyrr en við lestur frétta í fjölmiðlum eftir að ferðinni lauk. Í bréfinu er brýnt fyrir orkumálastjóra að samþykki ráðuneytisins liggi fyrir ef orkumálastjóri hyggi á fundi með ráðherrum erlendra ríkja og ef til standi að undirrita viljayfirlýsingar. Ráðuneytið og ráðherrann leggi áherslu á að þessu sé ætíð framfylgt.

Þegar Halla Hrund var spurð um þetta í þættinum Forystusætinu í ríkissjónvarpinu að kvöldi 14. maí sagði hún að sendiráð Íslands í Washington [þ. e. utanríkisráðuneytið] hefði vitað af ferðinni. Hún sagði að hér hefði verið „um að ræða almenna viljayfirlýsingu með engum skuldbindingum fyrir íslensk stjórnvöld“. Opinberar stofnanir stæðu reglulega að slíku.

Þegar um þetta er rætt verður að hafa í huga að Ísland og Argentína eiga aðild að Parísarsamkomulaginu frá 2015 og stefna því að sama markmiði í loftslagsmálum.

Augljóst er af öllu að Argentínuferð Höllu Hrundar dregur engan dilk á eftir sér í samskiptum Íslands og Argentínu. Ferðin hefur hins vegar orðið hluti af kosningabaráttu hér og kann að hafa áhrif á atkvæði einhverra – að sjálfsögðu kýs þjóðin ekki yfir sig forseta sem fer um allar koppa grundir og gefur yfirlýsingar.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er greint frá því að Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, hafi fundað um beint flug milli Kína og Íslands með He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi. Þykir þeim félögum raunhæft „að beina flugið verði að veruleika á næstu þremur til fimm árum. Jafnvel fyrr“. Er þetta í samræmi við yfirlýsingu sem kínverski sendiherrann gaf í hádegisverði með blaðamönnum fyrir nokkru.

Kínverjar létu reyna á viðnámsþrótt íslenskra stjórnvalda með tilraun til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Gegn því var staðið. Nú reynir kínverski sendiherrann á viðnámsþróttinn varðandi flugið. Er Isavia með heimild frá ráðuneytum til að vinna að málinu með sendiherranum?