12.4.2024 10:15

„Stafrænt Ísland“ stjórnlaust

Sé þessi óvirðing við settar reglur til marks um hvernig „stafrænt Ísland“ lítur á notkun á Ísland.is er markvisst unnið gegn trausti á þjónustugáttinni.

Ísland.is er þjónustugátt á vegum „stafræns Íslands“ sem er „stofa“ á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hver er staða slíkrar „stofu“ í stjórnarráðinu er óljóst en „stafrænt Ísland“ hefur notið viðurkenningar fyrir framtak í ýmsum efnum. Ísland.is er undir umsjá Þjóðskrár, hvað sem í því felst.

Markmið stjórnvalda er að starfrænvæða sem stærsta hluta þjónustu sinnar við almenning og nota gáttina Ísland.is til þess. Það eru því gífurlegir hagsmunir tengdir því að gáttin njóti trausts. Í boði gáttarinnar eru undirskriftarlistar. Um þá segir á Ísland.is:

„Einstaklingar geta stofnað undirskriftalista og almenningur sett nafn sitt á lista með rafrænni auðkenningu.

Markmiðið með undirskriftalistum á Ísland.is er að veita rafrænan vettvang til að fólk geti lagt málefni lið með öruggum hætti.

Að búa til undirskriftarlista þýðir að safna saman nöfnum og undirskriftum fólks sem styrkir tiltekið markmið eða málefni. Undirskriftarlisti er yfirleitt notaður í þeim tilgangi að bera saman áhrif eða stuðning við tiltekið málefni og sýna hversu margt fólk styður málefnið eða markmiðið.

• Umfangsefni listans snýst um málefni/atburði sem eru í umræðu hverju sinni.

• Listinn er í samræmi við lög og reglur landsins og stjórnarskrá Íslands.

• Framsetning má ekki vera ærumeiðandi og skal vera innan ramma almenns velsæmis.“

Eins og af þessum orðum sést er tilgangurinn með þessari þjónustu að þar sé tekin afstaða til málefna og markmiða. Listinn á að snúast um „málefni/atburð“, hann á að vera „í samræmi við lög og reglur landsins og stjórnarskrá Íslands“ og framsetning á hvorki að vera ærumeiðandi né utan „ramma almenns velsæmis“.

Island-fb-1200x630Myndin er af síðu „stafræns Íslands“.

Vegna aðfarar að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Ísland.is er ástæða til að velta fyrir sér hver á vegum „stafræns Íslands“ beri ábyrgð á að reglum um þjónustugátt þjóðarinnar sé framfylgt. Undirskriftasöfnunin brýtur í bága við allar reglur sem lýst er á Ísland.is um undirskriftalista: vegið er að einstaklingi en ekki tekin afstaða til málefnis eða markmiðs; forsætisráðherra er rétt kjörinn á alþingi og skipaður í embætti sitt í samræmi við stjórnarskrána og brýtur texti listans gegn þessu; loks er framsetningin ærumeiðandi af hálfu þeirra sem að söfnun nafnanna standa. Skortir verklagsreglur?

Sé þessi óvirðing við settar reglur til marks um hvernig „stafrænt Ísland“ lítur á notkun á Ísland.is er markvisst unnið gegn trausti á þjónustugáttinni. Að stjórnendur „stafræns Íslands“ skuli ekki hafa gripið í taumana sýnir tómlæti sem hlýtur að draga úr trausti hjá þeim sem verða að nýta gáttina.

Mikil viðbrögð urðu við því sem hér sagði í gær um þessa notkun á Ísland.is. Einn lesandi spurði: „Gæti ég og yrði það meðtekið á island.is ef ég setti af stað undirskriftarsöfnun með þessari yfirskrift: „Við viljum Kristrúnu Frostadóttur burt úr íslenskri pólitík vegna spillingar“. Svarið hlýtur að vera, já.

Það er dæmigert að fjölmiðlamönnum finnist ekkert athugavert við þessa misnotkun á Ísland.is eða hve margir nafnleysingjar skreyta listann.