Málfrelsi Jk Rowling í hættu
Málið vekur eðlilega miklar umræður í Bretlandi og um heim allan. Þykir talsmönnum málfrelsis mikils virði að heimsfrægi höfundurinn JK Rowling taki þennan slag.
JK Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, hefur skorað á skosku lögregluna að handtaka sig í samræmi við ný lög Skoska þjóðarflokksins (SNP) um hatursorðræðu. Hún er sökuð um að brjóta lögin með því að segja margar þjóðkunnar transkonur vera karlmenn.
JK Rowling
Rowling býr í Edinborg og sagði mánudaginn 1. apríl á X, áður Twitter:
„Ekki er lengur mál- og trúfrelsi í Skotlandi sé nákvæm lýsing á líffræðilegu kyni talin refsiverð.
Um þessar mundir er ég erlendis en teljist það sem ég hef skrifað brot samkvæmt nýju lögunum fagna ég því að verða handtekin þegar ég sný aftur til fæðingarstaðar skosku upplýsingarinnar.“
Rowling birti myndir af 10 þjóðkunnum trans-einstaklingum á Twitter og hæddist að fullyrðingum þeirra um að vera konur. Í hópnum var Isla Bryson sem var upphaflega send í kvennafangelsi eftir að hafa verið dæmd fyrir tvær nauðganir.
Skosku lögin um hatursorðræðu tóku gildi 1. apríl 2024. Rowling segir að þau opni leið fyrir aðgerðarsinna sem vilji þagga niður í þeim sem vari við hættunni af því að svipta konur og stúlkur sérstöku rými fyrir konur, veki athygli á ruglinu í afbrotatölfræði ef ofbeldi og kynferðisbrot karla eru talin afbrot kvenna, bendi á ósanngirnina sem birtist í því að karlar keppi í kvennaíþróttum, veki máls á óréttlætinu sem felist í því að karlar skilgreindir sem konur krefjist kvennastarfa eða viðurkenninga fyrir konur og haldi fast í þá skoðun að líffræðilegt kyn sé óumbreytanlegt.
Rowling lét þessi orð falla eftir að samfélagsráðherra SNP, Siobhian Brown, sagði að það að nota orðið „hann“ um transkonu myndi alls ekki falla utan ramma laganna. Ráðherrann viðurkenndi þegar hún var hvött til að sækja Rowling til saka fyrir brot á lögunum að það væri að vísu lögreglan en ekki hún sem yrði að kæra fyrir slík brot.
Núverandi leiðtogi SNP og fyrsti ráðherra Skotlands, Humza Yousaf, var dómsmálaráðherra í stjórn Nicolu Sturgeon þegar lögin um hatursorðræðu voru samþykkt í skoska þinginu árið 2021. Þau komu þó ekki til framkvæmda fyrr en núna þar sem skoska lögreglan taldi sig þurfa tíma til að þjálfa lögreglumenn við beitingu þeirra.
Málið vekur eðlilega miklar umræður í Bretlandi og um heim allan. Þykir talsmönnum málfrelsis mikils virði að heimsfrægi höfundurinn JK Rowling taki þennan slag.