22.6.2021 10:27

Mannréttindi fótum troðin

Gagnvart Apple Daily beittu yfirvöldin ekki ritskoðun heldur réðust á reksturinn sjálfan, grófu undan honum með öllum tiltækum ráðum og sviptu blaðið tekjum sínum.

Kínverjar viðurkenna ekki að mannréttindi séu algild heldur eigi að meta þau eftir „ríkjandi aðstæðum á hverjum tíma“. Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, sagði í grein í Morgunblaðinu mánudaginn 21. júní: „Kína hefur lagað meginreglur um mannréttindi að raunverulegri stöðu og þörfum fólksins í landinu.“ Þarna hefði í raun frekar átt að standa að „stöðu og þörfum FLOKKSINS“. Grein sendiherrans sannar að kínversk stjórnvöld viðurkenna ekki alþjóðareglur um mannréttindi heldur krefjast þess að þær séu lagaðar að sínum vilja.

Í ályktun á nýlegum ríkisoddvitafundi NATO var bent á að yfirlýsingar Kínastjórnar um markmið hennar og sjálfbirgingsleg framganga fæli í sér kerfisbunda ögrun við skipan alþjóðamála sem reist væri á umsömdum reglum. Þar er til dæmis átt við grunnreglur ýmissa alþjóðastofnana meðal annars um mannréttindi.

Im-356849Jimmy Lai, útgefandi í Hong Kong.

Sama dag og kínverski sendiherrann birti grein sína um að inntak mannréttinda ætti að ráðast af því sem Kínastjórn líkaði ákvað Alþjóðleg nefnd til varnar blaðamönnum (Committee to Protect Journalists, CPJ), sem stofnuð var fyrir 40 árum til að berjast í þágu blaðamanna sem „sæta árásum, eru handteknir eða drepnir“ að heiðra Jimmy Lai, stofnanda og blaðamann við Apple Daily í Hong Kong. Hann getur ekki tekið við viðurkenningarskjali vegna þess að hann situr í fangelsi í Hong Kong.

Lögregla hefur oftar en einu sinni verið send inn á ritstjórnarskrifstofur Apple Daily. Í fyrri viku voru tveir ritstjórar blaðsins handteknir og leiddir af lögreglu út úr skrifstofum sínum í samræmi við nýsett öryggislög. Nú er talið líklegt að Apple Daily lifi aðeins í fáeina daga og með dauða blaðsins takist kínverskum kommúnistum að þagga niður í enn einni röddinni sem þeir telja ögra alræðisvaldi sínu.

Gagnvart Apple Daily beittu yfirvöldin ekki ritskoðun heldur réðust á reksturinn sjálfan, grófu undan honum með öllum tiltækum ráðum og sviptu blaðið tekjum sínum.

Í leiðara The Wall Street Journal (WSJ) þriðjudaginn 22. júní segir að yfirvöld í Hong Kong steli fyrirtækinu frá Jimmy Lai af því að þau séu ósátt við stjórnmálaskoðanir hans, þau sendi lögreglu á vettvang án þess að nokkur fái rönd við reist með lagalegum úrræðum. Í þessu felist viðvörun til stjórnenda og eigenda annarra fyrirtækja í Hong Kong um að hvergi sé neinn óhultur fyrir valdhöfunum, hvort sem menn reki banka eða hátæknifyrirtæki.

WSJ segir Jimmy Lai og starfsmenn Apple Daily eiga skilið að fá viðurkenningu frá CPJ og hún ætti að draga athygli allra, hvar sem er í veröldinni, að því sem nú gerist í Hong Kong. Á sama tíma og Kommúnistaflokkur Kína reyni að beygja gagnrýnendur sína um heim allan undir eftirlitsvald sitt, oft án andmæla frá Hollywood eða bandarískum tæknifyrirtækjum, sé Jimmy Lai málsvari allra sem berjist fyrir málstað frelsis.

Úrígúrar berjast fyrir rétti sínu í vesturhluta Kína, í austurhluta Kína er nú skipulega unnið að því að ná alræðistökum á mál- og athafnafrelsi í Hong Kong. Að telja Íslendingum trú um að þetta sé gert í nafni mannréttinda er óvirðing.