16.4.2019 10:08

Notre Dame brennur

Að þessi einstæði atburður gerist í dymbilvikunni er yfirfært á atburði vikunnar – krossfestinguna og upprisuna – þrátt fyrir sorg sé einnig ástæða til að gleðjast og fagna.

Nortre Dame de Paris verður ekki skilin frá sögu Frakklands segir í leiðara Le Figaro í dag (16. apríl) þegar augu alls heimsins beinast að útveggjum kirkjunnar frægu sem standa eftir að tókst að slökkva elda í kirkjunni eftir níu klukkustunda baráttu.

Kirkjan sem staðið hefur staðið af sér stríð og byltingar í 850 ár stóð í ljósum logum frá því um klukkan 16.50 í gær að íslenskum tíma fram á nótt. Um tíma í gærkvöldi óttuðust margir að kirkjan mundi falla en hún stóð eldhafið af sér.

DHöfundur þessarar teikningar er Agathe Truchon-Bartes. Þarna sést franska „fjallkonan“ Marianne faðma Notre Dame og fella tár.

Umhverfis kirkjuna söng almenningur sálma og bað fyrir björgun þjóðarhelgidómsins – hjarta borgar og lands. Emmanuel Macron Frakklandsforseti fór tvisvar á vettvang og hét því að kirkjan risi að nýju.

Endurreisnin hefst strax í dag og þegar hafa hundruð milljónir evra safnast til verksins sem kann að taka áratug. Timburverkið í kirkjunni brann en annað stendur auk þess sem tókst að bjarga sumum mestu dýrgripum kirkjunnar þar á meðal helgum dómi, þyrnikórónu Krists. Athöfn henni til heiðurs hefur jafnan farið fram föstudaginn langa.

Að þessi einstæði atburður gerist í dymbilvikunni er yfirfært á atburði vikunnar – krossfestinguna og upprisuna – þrátt fyrir sorg sé einnig ástæða til að gleðjast og fagna.

Ss-composite-image-2019-4-16-3-14_trans_NvBQzQNjv4BqqVzuuqpFlyLIwiB6NTmJwfSVWeZ_vEN7c6bHu2jJnT8Frakkar leggja jafnan áherslu á lögin frá 1905 um aðskilnað ríkis og kirkju. Í dag sameinast þó allir Frakkar um Notre Dame, Frúarkirkjuna í París, og njóta samúðar langt út fyrir eigin landamæri. Um 13 milljónir gesta lögðu leið sína til Notre Dame ár hvert. Bruni hennar minnir menn um heim allan á að kirkjan stendur allt af sér og í atburði sem þessum felst ekki gjöreyðing heldur nýtt upphaf.

Eðlilegt er að því sé velt fyrir sér hvaða áhrif atburður sem þessi hafi á veraldleg viðhorf Frakka og þar með afstöðuna til þeirra sem fara með stjórn þjóðarinnar. Gulvestungar hafa í fimm mánuði notað laugardaga og sunnudaga til að mótmæla og vinsældir Macrons eru í lágmarki. Til að bregðast við gagnrýni hleypti forsetinn af stað „þjóðarumræðu“ og ætlaði að skýra frá niðurstöðum hennar í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi. Því var slegið á frest.

Hvort Emmanuel Macron tekst að vekja nýjar vonir á stjórnmálavettvangi kemur í ljós ­– hitt er öruggt að Notre Dame verður endurreist.