15.4.2023 11:05

Notre-Dame 4 árum síðar

Þótt mörgum hafi þótt 5 ára tímamörkin fráleit eru þau ekki lengur litin þeim augum. Þá virðist hitt einnig rætast sem forsetinn sagði fyrir fjórum árum, að endurreist yrði kirkjan jafnvel fallegri en áður.

Nú eru fjögur ár frá því að eldur varð laus í þaki Notre-Dame de Paris dómkirkjunnar. Um heim allan mátti fylgjast með því hvernig eldurinn breiddist hratt út um þakið og síðan niður í kirkjuskipið á meðan þeir sem voru þar kepptust við að bera út helga gripi og bjarga öllu sem bjargað varð. Um tíma var jafnvel óttast að kirkjan félli saman. Því tókst sem betur fer að forða.

262ed27e9462c6f1b02a7728378cd362dfc15997-1639053995-59b96e94-960x640

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kom á staðinn og lýsti yfir að kirkjan yrði endurreist á fimm árum. Forsetinn og fylgdarlið hans heimsótti kirkjuna í gær (14. apríl) og var blaðamaður frá Le Figaro með í hópnum. Hann segir að innan dyra hafi kirkjan þegar að hluta skipt um svip. Næstum 40.000 fermetrar af steinveggjum hafi verið hreinsaðir og afmengaðir og við blasi upprunalegur litur dómkirkjunnar. Ljósið sem berist inn um rósettu gluggana endurkastist af óþekkjanlega svölum veggjunum.

Kirkjuskipið sjáist þó ekki allt því að innan þess séu vinnupallar, 800 tonn að þyngd, og þeir beri með sér að enn sé unnið hörðum höndum við að ljúka viðgerðinni eða endurgerðinni innan þeirra marka sem forsetinn nefndi fyrir fjórum árum. Honum var sagt að þarna hefði margt reynst erfitt viðureignar en sigrast hefði verið á öllum erfiðleikunum. Það eitt líta menn á sem „sigur“ hvað sem tímamörkunum líður.

Þótt mörgum hafi þótt tímamörkin fráleit eru þau ekki lengur litin þeim augum. Þá virðist hitt einnig rætast sem forsetinn sagði fyrir fjórum árum, að endurreist yrði kirkjan jafnvel fallegri en áður.

Í gær sagði Macron: „Þegar maður setur sér metnaðarfull markmið gerist eitthvað. Kjörorð mitt er að halda mínu striki.“ Þótti þetta eiga vel við bæði innan kirkjuveggjanna og utan þar sem hópur fólks kom saman til að mótmæla stefnu forsetans um hækkun eftirlaunaaldurs og nýjum lögum um það efni sem franska stjórnlagaráðið úrskurðaði í gær að rúmuðust innan stjórnarskrárinnar.

Segir Le Figaro að nú sé dómkirkjan dæmi um að unnt sé vinna bæði hratt og vel. „Þetta er ótrúlegt,“ endurtók Frakklandsforseti hvað eftir annað.

Um þessar mundir eru um 500 manns við störf í kirkjubyggingunni sjálfri og mun þeim fjölga næstu mánuði. Um allt Frakkland leggja handverksmenn og aðrir endurreisninni lið með sérhæfðri vinnu sinni á eigin verkstæðum.

Á leið sinni út úr dómkirkjunni skoðaði forsetinn ýmsar kapellur í kirkjunni. Áður voru veggir þeirra svartir og höfðu sumir þeirra verið málaðir. Nú taka þeir smátt og smátt á sig upprunalegri svip og segir Le Figaro að það verði liðin tíð að gestir í kirkjunni gangi fram hjá kapellunum án þess að vilja skoða þær.

Lýsingin á því sem gerist nú í Notre-Dame de Paris ber með sér að þeim sem leggja þangað leið sína eftir endurreisnina fjölgar en fækkar ekki. Milljónir eiga eftir að njóta þar guðs blessunar og dást að þeim sem endurreistu kirkjuna heilagri guðsmóður til dýrðar.