19.1.2019 13:01

Norskir prófessorar og 3. orkupakkinn

Til marks um að lögfræðinga greini á um þætti sem varða EES-aðildina má nefna tvo norska prófessora og það sem þeir hafa að segja um þriðja orkupakkann.

Tómas Ingi Olrich, fyrrv. ráðherra og sendiherra, hefur undanfarið birt þrjár fróðlegar greinar í Morgunblaðinu í tilefni af umræðum um EES-samninginn og þriðja orkupakkann.

Í fyrstu greininni sem birtist mánudaginn 14. janúar sagði Tómas Ingi meðal annars um þá hugmynd að heimila aðild að EES beint í stjórnarskránni:

„Þessi nýja hugmynd um stjórnarskrárbreytingu er annarleg og ekki beinlínis til merkis um að grundvöllur lýðræðisins sé að styrkjast.

Uppruni regluverks EES getur ekki með góðu móti flokkast undir alþjóðasamstarf, eins og þeir sem enn styðja aðild að ESB gjarnan leggja áherslu á.“

Þetta er ekki ný hugmynd heldur hefur hún verið reifuð áður en fylgi við hana kann að hafa aukist vegna þess að æ fleiri átta sig á því hve undarleg sú stjórnskipulega aðferð er að stjórnmálamenn telja sér ekki fært að taka ákvarðanir um löggjöf sem á uppruna sinn í EES-rétti án þess að hafa til þess heimild frá viðurkenndum lögfræðilegum álitsgjafa. Er ekki skynsamlegra að leita á lýðræðislegan hátt stjórnskipulegrar lausnar sem tekur mið af stöðu og hagsmunum íslenska ríkisins? Sé aðild að EES ekki „alþjóðasamstarf “ er þeim mun brýnna að skilgreina aðild Íslands að því og leita sátta um þá skilgreiningu. Tómas Ingi mælir ekki með úrsögn úr EES. Hann vill réttilega ekki aðild að ESB.

Fotolia-frankpeters-energy-unionTil marks um að lögfræðinga greini á um þætti sem varða EES-aðildina má nefna tvo norska prófessora og það sem þeir hafa að segja um þriðja orkupakkann.

Peter Ørebech er prófessor í „hav- og fiskerett“ við Norges fiskerihøgskole við Háskólann í Tromsø. Hann hefur árum saman verið virkur þátttakandi í norska Miðflokknum og samtökunum Nei til EU, var meðal annars varaþingmaður Miðflokksins árin 2009 til 2013.

Í september birti Ørebech álitsgerð gegn aðild Íslands að 3. orkupakka ESB. Niðurstaða hans er að með innleiðingu hans séu íslensk stjórnvöld varnarlaus gagnvart þeim sem vilja tengja Ísland ESB-orkumarkaði með sæstreng. Má skilja orð Tómasar Inga í Morgunblaðinu í dag (19. janúar) á þann veg að hann hallist að þessari skoðun Ørebechs.

Energi Norge (samtök norskra orkufyrirtækja) birti föstudaginn 18. janúar álitsgerð eftir Henrik Bjørnebye, prófessor við Nordisk institutt for sjørett í Osló og sérfræðing í orkurétti, ESB- og EES-rétti og olíurétti.

Bjørnebye er ósammála Ørebech. Hann leggur áherslu á að hvað sem líði 3. orkupakkanum og örlögum hans hrófli það ekki við frjálsum viðskiptum með orku á EES-svæðinu. EES-ríkjum yrði til dæmis áfram skylt að hindra ekki frjálst flæði orku yfir landamæri. Málið snúi því ekki að aðild að orkumarkaði ESB heldur að leiðum til auðvelda virkni innri orkumarkaðarins.

Bjørnebye segir það á valdi hvers ríkis að ákveða hvaða stjórnvald taki ákvörðun um tengingu við evrópska orkumarkaðinn. Það sé til dæmi norska olíu- og orkuráðuneytið sem eigi síðasta orðið um þetta í Noregi. ACER-orkueftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi ekkert um það að segja hver taki slíkar ákvarðanir eða hvers efnis þær séu. Í þriðja orkupakkanum sé ekki að finna neitt sem lýtur að valdsviði innlendra stofnana á þessu sviði umfram það sem ekki sé þegar í gildi í aðildarríkjum EES.