Norrænt uppnám vegna ESB-kosninga
Kyrrstaða í stjórnmálum hér og reiptog um óleyst mál fyrir þinglok er kannski logn á undan svipuðum pólitískum stormi og víða geisar nú í Evrópu?
Í Finnlandi og Danmörku nutu ungar konur í framboði fyrir flokkana lengst til vinstri mestra vinsælda í kosningunum til ESB-þingsins sunnudaginn 9. júní.
Vinstra bandalagið tók óvænt stórt stökk í Finnlandi. Li Andresson (37 ára), formaður Vinstra bandalagsins, fékk flest persónuleg atkvæði í kosningunum og flokkur hennar jók fylgi sitt um 10,9 prósentustig miðað við ESB-kosningarnar 2019. Hlaut hann alls 17,3% og kom næstur á eftir sigurvegaranum, mið-hægri stjórnarforystuflokknum, Sameiningarflokknum, sem hlaut 24,7%.
Sósíalíski vinstriflokknum (SV) varð sigurvegari kosninganna í Danmörku. Kira Marie Peter-Hansen (26 ára), oddviti flokksins, fékk flest persónuleg atkvæði í kosningunum og alls fékk flokkurinn 17,4% atkvæða sem er rúmum fjórum stigum meira fylgi en árið 2019. Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forsætisráðherra hlaut 15,6% atkvæðanna sem er tæplega sex prósentustigum minna fylgi en árið 2019. Danskir jafnaðarmenn hafa ekki fengið minna fylgi síðan 1898 segir á vefsíðunni altinget.dk.
Í Svíþjóð jók Vinstriflokkurinn fylgi sitt um tæp þrjú stig í 10,7% og Græningjar styrktu stöðu sína um rúm fjögur stig og fengu 15,7% atkvæðanna. Sænskir jafnaðarmenn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, bættu stöðu sína í fyrsta skipti í ESB-kosningum frá aðild Svía að sambandinu árið 1995, þeir fengu 24,8% atkvæðanna, 1,4 stigum meira en 2019. Þeir falla þó í skugga Vinstriflokksins og Græningja.
Finnaflokkurinn og Svíþjóðardemókratar, flokkarnir sem eiga samleið með þjóðernissinnaflokkum á meginlandi Evrópu, koma laskaðir frá ESB-kosningunum. Sumir álitsgjafar segja að ástæðan sé að kjósendur í löndum þeirra hafi viljað forðast „skautun“ og verið uppteknari af loftslagsmálum en útlendingamálum.
Sé litið á vinstri væng stjórnmálanna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi annars vegar og hér á Íslandi hins vegar er þróunin allt önnur hér en þar. Hér á flokkurinn lengst til vinstri, VG, undir högg að sækja og er að mati margra við dauðans dyr á sama tíma og Samfylkingin sækir í sig veðrið undir forystu ungrar konu sem vill færa flokkinn til hægri og keppa um fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.
Þessar þrjár konur frá Sósíalíska vinstriflokknum, Róttæka flokknum og Jafnaðarmannaflokknum eru meðal þingmanna Dana á ESB-þinginu, allar oddvitar flokka sinna.
Vinstri flokkarnir í Finnlandi og Svíþjóð eru í stjórnarandstöðu og ESB-kosningarnar kalla ekki á neina uppstokkun í ríkisstjórnum landanna nema jarðarflokkarnir til hægri ókyrrist. Danski Jafnaðarmannaflokkurinn leiðir hins vegar ríkisstjórn Danmerkur og innan hans eru vaxandi og háværari kröfur um „naflaskoðun“ og endurmat á stefnumálum.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra og formaður Moderaterna, sagði að kvöldi kjördags að ríkisstjórnin yrði að slípa og skerpa stefnu sína. Innan þriðja danska stjórnarflokksins, Venstre, eru menn uggandi vegna minnkandi fylgis og Søren Gade þingforseti gaf til kynna að Troel Lund Poulsen flokksformaður flokksformaður ætti að láta af embætti varnarmálaráðherra og verða varaforsætisráðherra til að hafa meiri tíma til að styrkja innviði flokksins.
Kyrrstaða í stjórnmálum hér og reiptog um óleyst mál fyrir þinglok er kannski logn á undan svipuðum pólitískum stormi og víða geisar nú í Evrópu?