8.2.2021 12:21

Norrænt málþing um Bjarnason-rapporten

Viðhorf framsögumanna og sjónarmið sem komu fram í ummælum eða fyrirspurnum fundarmanna voru á þann veg að sem skýrsluhöfundur og tillögusmiður get ég ekki annað en vel við unað.

Í morgun (8. febrúar) efndi Norðurlandaráð og Folketinget, danska þingið, til net-málþings um skýrslu mína um norræna utanríkis- og öryggismálastefnu 2020. Rúmlega 100 manns tóku þátt í netfundinum þegar flestir voru tengdir. Þessi fundur og fundur sem Finnar skipulögðu undir heitinu Hanating í Hanaholmen í Finnlandi um skýrsluna eru fjölmennustu netfundir sem ég hef setið.

Norðurlandaráð notar Zoom-netfundakerfið sem virkar vel. Þá hefur Norðurlandaráðsskrifstofan í Kaupmannahöfn jafnframt tekið í notkun smáforrit sem heitir Congress Rental Network. Því er hlaðið niður á snjallsíma og hann er síðan notaður sem milliliður fyrir samtímis-túlkun svo að Íslendingar og Finnar geta talað á eigin tungumálum. Áður en til þessa fundar kom vissi ég ekki um þessa tækni en hún reyndist vel og hnökralaus.

20210115-133330-7_30MbEf ekki hefði verið vegna þessarar tækni hefði ekki verið unnt að efna til málþingsins á þessum COVID-19-tímum. Án COVID-19-ferðatakmarkana hefði þátttaka í þessum tveggja tíma fundi kallað á flugferð í gær til Kaupmannahafnar og heimferðar síðdegis í dag. Vissulega hefði verið ánægjulegt að hitta þetta ágæta fólk, rifja upp gömul kynni og ræða mál óformlega. Megintilgangur málþingsins náðist hins vegar með netfundinum, það er að skiptast á skoðunum um um skýrsluna. Á þessum vettvangi er rætt um hana sem Bjarnason-rapporten.

Danski Venstre-þingmaðurinn Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, setti málþingið sem haldið var undir fyrirsögninni: Hvor står vi? – Hvor går vi? Annette Lind, þingmaður danskra jafnaðarmanna, varaforseti Norðurlandaráðs, stjórnaði fundinum. Í upphafi fór ég nokkrum orðum um skýrsluna, má lesa ræðu mína hér. Danskur majór, Mikkel Storm Jensen, ræddi um fjölþátta ógnir. Johanna Sumuvuori, vara-utanríkisráðherra Finna, gerði grein fyrir hvernig utanríkisráðherrar Norðurlandanna fimm og ráðuneyti þeirra í samvinnu við önnur ráðuneyti vinna úr skýrslunni. Þá skýrði Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, frá viðhorfi sínu til skýrslunnar.

Viðhorf framsögumanna og sjónarmið sem komu fram í ummælum eða fyrirspurnum fundarmanna voru á þann veg að sem skýrsluhöfundur og tillögusmiður get ég ekki annað en vel við unað.

Ég er þeirrar skoðunar að með nýrri stjórn í Bandaríkjunum eftir forsetaskiptin þar skipti miklu fyrir norrænu ríkisstjórnirnar að vinna saman þegar nýju lífi er blásið í alþjóðastofnanir með virkri eða virkari þátttöku Bandaríkjastjórnar.

Þá á samhliða tvíhliða samskiptum við Bandaríkjastjórn að stórefla sameiginleg norræn samskipti við bandaríska varnarmálaráðuneytið, einkum með tilliti til norðurslóða. Lloyd Austin, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur á óformlegan hátt, að minnsta kosti, boðið til viðræðna við bandalagsþjóðir (Dani, Íslendinga og Norðmenn) og samstarfsþjóðir (Finna og Svía) um þróunina á norðurslóðum.