Norrænn fjarfundur í Berlín
Það var áréttað á fjarfundinum sem finnska sendiráðið í Berlín boðaði til miðvikudaginn 8. september hve norrænt samstarfs skiptir miklu.
Það var áréttað á fjarfundinum sem finnska sendiráðið í Berlín boðaði til miðvikudaginn 8. september hve norrænt samstarfs skiptir miklu.
Í upphafsræðu sem minni, sjá hér , sagði ég meðal annars að sumir kynnu að halda því fram að með COVID-faraldrinum og öllu umrótinu sem við blasti á alþjóðavettvangi skipti litlu máli hvað ríkisstjórnir Norðurlandanna hefðu til málanna að leggja. Þvert á móti mætti halda því fram að norræn samvinna hefði varla nokkru sinni (e. hardly ever) átt jafn mikið erindi og núna. Hún væri ekki aðeins mikilvæg fyrir Norðurlandaþjóðirnar sjálfar heldur einnig fyrir allar frjálslyndar, vestrænar þjóðir.
Rebecca Reichherzer í stjórnmálaskrifstofu danska utanríkisráðuneytisins tók saman umræður á fundinum í lok hans. Hún tók undir að nú væri einstakt tækifæri fyrir norrænu ríkin til að láta að sér kveða sameiginlega á alþjóðavettvangi.
Fyrir utan Önnu Sipiläinen, sendiherra Finna í Berlín, sem setti fjarfundinn og Robin Allers frá Norsku utanríkismálastofnuninni sem stjórnaði honum voru þátttakendur:
Dr Matti Pesu frá Finnsku utanríkismálastofnuninni, Dr Kai-Olaf Lang frá Stiftung Wissenschaft und Politik (SWP) í Berlín, stofnunin lætur verulega að sér kveða í umræðum og stefnumótun á sviði utanríkismála í Þýskalandi, og Anders Kalin, sendiherra í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi.
Í ræðu minni í Berlín vakti ég máls á heimsókn bandarísku B2 Spirit sprengjuþotnanna til Íslands.
Í upphafsræðu minni sagði ég að bandaríski flugherinn léti nú meira að sér kveða á norðurslóðum meðal annars með því að senda B-2 Spirit torséðar sprengjuþotur til Íslands og stunda æfingar með B1-B sprengjuþotum frá Ørland flugherstöðinni í Noregi á sama tíma og Bandaríkjaher hyrfi frá Afganistan. Þá hefði Joe Biden Bandaríkjaforseti gefið til kynna að hann vildi ekki að Bandaríkjamenn gegndu áfram hlutverki alheimslögreglu. Þeir mundu aðeins hlutast til um málefni annarra ríkja væri markmið íhlutunarinnar ótvírætt og um væri að ræða grundvallarhagsmuni Bandaríkjanna.
Taldi ég að vegna loftslagsbreytinga væru viðfangsefni og strategísk þróun á hagsmunasvæði Norðurlandanna á þann veg að bráðnauðsynlegt væri að Bandaríkjamenn legðu sitt af mörkum til að tryggja jafnvægi á svæðinu.
Undir þetta tóku allir norrænu þátttakendurnir. Sannaðist þarna enn hve mikil samstaða er milli norrænna stjórnvalda um grundvallarstefnuna í öryggismálum og hve sambærilegt mat þeirra er á ráðstöfunum sem gera þarf til að tryggja öryggi þjóðanna og stöðugleika í okkar heimshluta.
Norrænu ríkin eru gjarnan nefnd N5 í umræðum um samstarfið í utanríkis- og öryggismálum. Hópurinn verður NB8 þegar Eystrasaltsríkin koma til sögunnar, samstarf NB8-hópsins verður sífellt nánara. Þá er til hópurinn NB8+V4 og er þar vísað til Visegrad-ríkjanna 4, Póllands, Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands. Þá er efnt til funda undir merkjum N+1. Tölustafurinn 1 stendur þá fyrir einstakt samstarfsríki við N5-hópinn. Þar má nefna Bandaríkin og Indland. Á fjarfundinum kom fram að stofna ætti N5+1 samstarf við Þýskaland. Eftir að Bretar fóru úr ESB vex áhugi þeirra á auknu samstarfi við N5.