26.3.2022 11:23

Norrænar varnir efldar

Hvarvetna á Norðurlöndunum utan Íslands hafa forsætisráðherrar stigið fram og kynnt mikilvægar ákvarðanir til að treysta varnir þjóða sinna og enn meira sé í farvatninu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áréttar í samtali við Morgunblaðið í dag (26. mars) gildi þess sem hún kallar „kjarnagrein“ NATO, það er 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll. Segir hana grunn mikillar samstöðu á ríkisoddvitafundi bandalagsins í Brussel fimmtudaginn 24. mars.

Henni þykir einnig miklu skipta að bandalagsríkin standi „fast á því“ að þau séu „ekki að fara inn í þessi átök“ í Úkraínu. Í yfirlýsingu fundarins segi að efnavopn og beiting þeirra „sé í raun og veru lína sem ekki megi fara yfir“.

Forsætisráðherra er hugsað til afleiðinga stríðsins fyrir almenna borgara og straums flóttafólks frá Úkraínu. Þá geti efnahagslegar afleiðingar stríðsins „orðið verulega neikvæðar“ þegar fram líði stundir. „Þarna er stór hluti af hveitiframleiðslu heimsins og þetta getur haft skæð áhrif á hungur í heiminum,“ segir forsætisráðherra að lokum.

Eins og sjá má á ályktun fundarins sem birtist hér á íslensku er þar farið mjög hörðum orðum um árásarstríð Pútins og glæpaverk rússneska hersins í Úkraínu. Þá eru boðuð umskipti í varnarkerfi NATO-ríkjanna í Evrópu.

Því miður víkur Katrín Jakobsdóttir ekki skýrum orðum að því hvað felst í þessum umskiptum fyrir Ísland og framlag okkar til samstarfsins innan NATO. Þegar talað er um okkur sem herlausa þjóð jafngildir það ekki hjásetu þegar bandamenn okkar efla varnir sínar heldur krefst framlags á þann veg sem fellur að íslenskum lögum.

Hvarvetna á Norðurlöndunum utan Íslands hafa forsætisráðherrar stigið fram og boðað og mikilvægar ákvarðanir til að treysta varnir þjóða sinna og enn meira sé í farvatninu.

Norræn samvinna í öryggis- og varnarmálum er nú þriðja stoðin undir öryggismálastefnu Íslands. Norrænu ríkin eiga nú meiri samleið í þessum efnum en þau hafa átt í 600 ár, eða frá því að Kalmarsambandið leið undir lok árið 1523. Með það í huga er furðulegt að hér skuli formaður Norræna félagsins halda því fram á 100 ára afmæli norrænnar samvinnu í nútímamynd að hún minnki vegna aðildar að ESB og NATO. Fyrir þessu eru engin marktæk rök.

Andersson-kristersson-cp22Magdalena Anderson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Ulf Kristersson, leiðtogi sænsku stjórnarandstöðunnar, heimsóttu sænsku hermennina í NATO-æfingunni mánudaginn 21. mars

Norðmenn leiða nú mikla NATO-æfingu í norðurhluta lands síns. Þar eru sænskir og finnskir hermenn meðal þátttakenda. Magdalena Anderson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Ulf Kristersson, leiðtogi sænsku stjórnarandstöðunnar, heimsóttu sænsku hermennina í æfingunni mánudaginn 21. mars. Vildu þau með því staðfesta samstöðuna að baki öflugum vörnum í samvinnu við aðra. Nýleg könnun sýnir að í fyrsta sinn er meirihluti Svía (51%) fylgjandi NATO-aðild, í Finnlandi er stuðningurinn 62%.

Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, flutti stórþinginu skýrslu þriðjudaginn 22. mars. Ræða hennar snerist að meginefni um stríðið í Úkraínu og áhrif þess á mótun öryggisstefnu Norðmanna og næstu nágranna þeirra sem hlyti að taka mið af því að nú hefði rembingslegur og árásargjarn nágranni birst í austri sem beitti hervaldi til að ná markmiði sínu. Norðmenn stæðu frammi fyrir þessum veruleika og yrðu að bregðast við honum.

Þessi veruleiki blasir einnig við okkur Íslendingum og við honum verða stjórnvöld að bregðast.