17.10.2021 10:27

Norræna varnarmálastoðin

Bertel Haarder segir norræna smáríkjahugarfarið úrelt. Það hafi verið þægindaleið til að skjóta sér undan ábyrgð á eigin öryggi og annarra.

Bertel Haarder (f.1944) er þingmaður Venstre og sá sem lengst hefur setið í dönskum ríkisstjórnum í áranna rás. Hann var meðal annars menntamálaráðherra þegar lokasamkomulag var gert um handritamálið um miðjan níunda áratuginn. Hann er áhrifamaður í norrænu samstarfi. Haarder skrifar grein í Jyllands-Posten sunnudaginn 17. október um að Norðurlöndin eigi sameiginlega að láta meira að sér kveða í varnar- og öryggismálum.

Hann minnir á að sem efnahagsheild geti norrænu ríkin borið sig saman við Rússland og sameiginlega eigi norrænu þjóðirnar stærsta kaupskipaflota heims. Þá eigi Norðurlöndin lönd að siglingaleiðum Rússa út á úthöfin í vestri, á Eystrasalti og í GIUK-hliðinu.

Bertel_haarderBertel Haarder.

Haarder segir norræna smáríkjahugarfarið úrelt. Það hafi verið þægindaleið til að skjóta sér undan ábyrgð á eigin öryggi og annarra. Sameinuð séu Norðurlöndin alls ekki smá, sameiginlega séu þau vinalegt stórveldi.

Hann minnir á að norrænu ríkin auki jafnt og þétt varnar- og öryggissamstarf sitt, þar á meðal samstarf um netöryggi (d. cybersikkerhed). Árið 2009 hafi verið stofnað til norræna varnarsamstarfsins NORDEFCO. Það nái til margra sameiginlegra þátta á sviði varnarmála. Samstarfið taki mið af tillögum sem Norðmaðurinn Thorvald Stoltenberg lagði fram í upphafi ás 2009. Nú liggi fyrir Bjarnason-skýrslan þar sem athygli sé beint að netöryggi en sérstaklega sé brýnt að gæta þess í há-stafrænum samfélögum Norðurlanda.

Haarder minnir á virka þátttöku Svía og Finna í norrænu varnarsamstarfi og nú leggi Finnar sem formenn NORDEFCO áherslu á norræn tengsl í varnarmálum við ríkin í Norður-Ameríku. Ótti Finna og Svía við NATO sé sem betur fer úr sögunni.

Hann telur að enn sé margt ógert í þessum efnum og mörg tækifæri séu til að dýpka samstarf þjóðanna án þess að vinna gegn sameiginlegu markmiði þeirra um Norðurlöndin sem lágspennusvæði. Enginn tryggi lágspennu með því að skapa hernaðarlegt tómarúm sem kunni að freista Rússlandsforseta og ýta undir ævintýramennsku af hans hálfu. Það besta sem norrænu þjóðirnar geti gert til að tryggja áfram lágspennu sé að standa sjálfar vaktina, að sýna árvekni sjálfar og eiga trausta bandamenn.

Hafa beri í huga að það hindri ekkert norrænt samstarf um varnar- og öryggismál að Svíar og Finnar standi utan NATO eða að Norðmenn og Íslendingar séu ekki í ESB, eða Danir taki ekki þátt í varnarsamstarfi ESB. Þjóðirnar hafi frelsi til að vinna saman að því að tryggja sameiginlegt öryggi sitt og þau geri það í vaxandi mæli. Nú eigi að nýta betur þann skriðþunga sem í samstarfinu felist.

Við gerð þess sem Bertel Haarder kallar „Bjarnason-skýrsluna“ komst ég að sömu niðurstöðu og hann: að líta beri á norrænt samstarf í varnar- og öryggismálum sem nýja vídd. Fyrir okkur Íslendinga sé samstarfið í raun þriðja stoð stefnunnar sem við eigum að fylgja í þessum efnum samhliða NATO-aðildinni og tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkjamenn.