Norræna skýrslan til umræðu
Tillögur eins og finna má í skýrslunni snúa eðli málsins fyrst og síðast að þeim sem vinna að framkvæmd norrænnar stefnu í utanríkis- og öryggismálum.
Til að halda því til haga er birt hér hluti fréttatilkynningar utanríkisráðuneytisins frá mánudegi 6. september 2021. Þar segir:
„Framkvæmd tillagna Björns Bjarnasonar um eflingu norræns utanríkismálasamstarfs, ástandið í Afganistan og samstarf á vettvangi alþjóðastofnana voru efst á baugi fjarfundar utanríkisráðherra Norðurlanda í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.
Guðlaugur Þór lagði í máli sínu áherslu á eftirfylgni við skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. „Við höfum nú í sameiningu skilgreint og forgangsraðað málum sem við erum sammála um að vinna að með virkum hætti. Nú þurfum við að bretta upp ermar og stíga næstu skref í framkvæmd þessara tillagna,“ sagði Guðlaugur Þór.“
Fyrir tæpu ári sótti ég fund norrænu utanríkisráðherranna þegar hann var haldinn á Borgundarhólmi. Þá fór Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, með formennsku í ráðherrahópnum.Á fundinum var ákveðið hvernig staðið yrði að verkaskiptingu milli ráðuneyta við framkvæmd tillagnanna í skýrslunni.
Loftmyndin er af byggingunum í hjarta Berlínar sem hýsa sendiráð Norðurlandanna fimm. Þessi tilhögun er einstæð í norrænni samvinnu.
Nú er Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, formaður í norræna ráðherrahópnum og á morgun boðar Anna Sipiläinen, sendiherra Finna, í Berlín til þess sem kallað er „webinar“ það er fjarfundar um skýrslu mína undir heitinu: Shaping a Safer and More Sustainable World Together.
Að lokinni upphafsræðu minni verða pallborðsumræður með þátttöku sérfæðinga frá Þýskalandi, Finnlandi og Svíþjóð. Robin Allers, aðstoðarprófessor við Norsku utanríkismálastofnunarinnar, stjórnar þeim.
Tvær meginspurningar eru til umræðu: How to further develop Nordic cooperation on foreign and security policy? Do we need a more integrated Nordic approach to tackle global challenges such as hybrid threats and cyber issues?
Tillögur eins og finna má í skýrslunni snúa eðli málsins fyrst og síðast að þeim sem vinna að framkvæmd norrænnar stefnu í utanríkis- og öryggismálum og auðvelda þeim að stilla saman strengi þegar til þess er litið að utanríkisráðherrarnir hafa samþykkt tillögurnar.
Þá hefur tillögunum verið vel tekið af Norðurlandaráði undir forsæti Danans Bertels Haarders og í sumar var efnt til fjarfundar um þær undir hans stjórn þar sem einmitt var lögð áhersla á net- og tölvuöryggi eins og gert verður á Berlínarfundinum. Það öryggismál brennur á stjórnvöldum hvarvetna á Norðurlöndunum og við því verður ekki brugðist á viðunandi hátt nema með samvinnu margra þjóða.
Tillögurnar hafa einnig gildi fyrir stjórnvöld utan Norðurlandanna sem vilja átta sig á sameiginlegri afstöðu ríkisstjórna landanna fimm til mikilvægra mála á alþjóðavettvangi. Hef ég í því efni orðið var við sérstakan áhuga af hálfu Breta sem endurmeta nú stöðu sína eftir úrsögnina úr ESB.