15.7.2023 10:20

Norræn framtíð í NATO

Í öllu tilliti sigla norrænu ríkin nú á nýjum slóðum í öryggismálum. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld séu eins virk í þátttöku sinni og verða má af þjóð sem kýs að taka ekki beinan þátt í eigin hervörnum.

Fundur Joes Bidens Bandaríkjaforseta með Finnlandsforseta og forsætisráðherrum Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar í Helsinki fimmtudaginn 13. júlí var enn ein staðfestingin á nýrri stöðu öryggismála í okkar heimshluta. Hún hefur mótast stig af stigi frá því að Vladimir Pútin Rússlandsforseti sendi her sinn inn í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði um þessar breytingar:

„Nú eru Norðurlönd sameinuð að því er varðar öryggismál. Norrænu ríkin hafa átt samleið á mjög mörgum sviðum en við höfum ekki verið að fullu samstiga á vettvangi öryggismála. Það erum við núna.“

Vísir birtir 13. júlí frásögn af viðtali Heimis Más Péturssonar fréttamanns við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem segir fundinn með Biden „hafa verið mjög frjálsan og opinn og málin rædd óformlega“.

_ON_9055Frá norræna fundinum með Biden í Helsinki 13. júlí.

Í opinberri tilkynningu að fundinum loknum segir að þar hafi verið áréttað hve NATO skipti miklu fyrir svæðisbundið öryggi (les: Norðurlöndin) fyrir utan almennt gildi bandalagsins fyrir öryggi og stöðugleika beggja vegna Atlantshafs. Aðild „Finna og Svía að NATO styrki getu norrænu ríkjanna til að leggja jafnvel enn meira af mörkum til öryggis allra aðildarlanda NATO“. Norrænu ríkin hafi einnig látið „í ljós þakklæti fyrir að Bandaríkjamenn skuldbindi sig áfram til að tryggja öryggi beggja vegna Atlantshafs, í Evrópu og Norður-Evrópu og þau [séu] reiðubúin til að dýpka öryggis- og varnarsamstarf sitt við Bandaríkin, þar á meðal með því að nýta sameiginlega norræna samstarfsvettvanginn (NORDEFCO)“.

Hvernig úr þessu verður unnið kemur í ljós. Innan þrískipts herstjórnarkerfis NATO falla Norðurlöndin og evrópski hluti norðurslóða undir sameiginlegu herstjórnina í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.

Þegar Bandaríkjamenn héldu úti herafla í Keflavíkurstöðinni féll hún undir stjórn frá Norfolk þar sem þá var tvískipt herstjórn Bandaríkjamanna og NATO sem var lokað en hefur nú verið opnuð aftur.

Í kalda stríðinu féllu Noregur og Danmörk undir Evrópuherstjórnina í NATO. Undanfarin ár hefur starfsemi NATO á öryggissvæðinu í Keflavík verið undir stjórn frá Brunssum í Hollandi. Þegar breytt skipan við gerð varnaráætlana og framkvæmd þeirra verður innleidd í NATO flyst ábyrgðin varðandi Norðurlöndin öll til Norfolk en þar hafa íslensk stjórnvöld nú þegar tengslafulltrúa og er líklegt að þeim fjölgi.

Í norska blaðinu Klassekampen birtist fimmtudaginn 13. júlí viðtal við Erik Kristoffersen, yfirmann norska hersins, þar sem hann lýsir áhuga yfirmanna norrænu herjanna á að sameiginleg undirherstjórn þeirra undir merkjum NATO fái aðsetur í Bodø í Norður-Noregi. Norski herinn notar stöðina nú undir aðgerðastjórn sína.

Herfræðingar vara við því að setja mikilvæga NATO-stjórnstöð niður svo nærri Rússlandi. Í Moskvu verði litið á það sem ögrun og fjandskap.

Í öllu tilliti sigla norrænu ríkin nú á nýjum slóðum í öryggismálum. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld séu eins virk í þátttöku sinni og verða má af þjóð sem kýs að taka ekki beinan þátt í eigin hervörnum.