26.7.2023 9:41

Noregur: Rauð flokksstjarna fellur

Veslemøy Hedvig Østrem segir að flokksformaðurinn hafi fordæmt tillitsleysi auðmanna en sjálfur stolið sólgleraugum og þar að auki gerst sekur um lygar.

Rødt er stjórnmálaflokkurinn lengst til vinstri á norska stórþinginu þar sem hann á nú átta þingmenn. Þegar fráfarandi formaður flokksins, Bjørnar Moxens, var valinn til flokksformennsku fyrir 11 árum litu fáir á Rødt sem alvöru pólitískt afl. Þegar Moxens segir af sér formennskunni segir Veslemøy Hedvig Østrem, aðalritstjóri vefsíðunnar altinget.no, að flokkurinn hafi átt þátt í að breyta norskum stjórnmálum og stjórnmálaumræðum.

Hún segir 28. júlí að Moxens hafi bæði í borgarstjórn Oslóar og á stórþinginu sótt hart gegn hægristefnu og einkavæðingu en innan flokksins hafi hann fundið leiðir til málamiðlunar, til dæmis til stuðnings vopnasendingum til Úkraínu. Honum hafi þó ekki tekist að afmá orðið kommúnismi úr stefnuskrá flokksins.

Að kvöldi sunnudagsins 23. júlí tilkynnti Marie Sneve Martinussen, varaformaður í Rødt, að Bjørnar Moxnes hefði ákveðið að segja af sér formennsku. Enginn í landstjórn flokksins mótmælti þessari ákvörðun hans.

Veslemøy Hedvig Østrem segir að flokksformaðurinn hafi fordæmt tillitsleysi auðmanna en sjálfur stolið sólgleraugum og þar að auki gerst sekur um lygar. Slík framganga hæfi í illa í flokki sem krefjist gagnsæis í skattamálum, fjármagnsflutningum og valdakerfum.

Image-3.256640.20882.20150831124315Bjørnar Moxnes.

Ritstjórinn segir að formaðurinn hefði ef til vill komist upp með að hafa verið staðinn að verki á flugvellinum í Osló þegar hann stal sólgleraugum undir vökulu auga eftirlitsmyndavéla. Það hafi hins vegar orðið honum endanlega að falli í flokknum að segja nánustu samstarfsmönnum í flokknum ósatt. Þeir hafi verið blekktir til að verja hann opinberlega.

Í Rødt naut Bjørnar Moxnes vinsælda á borð við poppstjörnu. Veslemøy Hedvig Østrem segir að ómögulegt sé að skýra fall svo valdamikillar flokksstjörnu með vísan til einfalds þjófnaðar. Í efstu þrepum stjórnmálanna sé nauðsynlegt að þora að taka áhættu. Ef til vill hafi 11 ár í slíkri baráttu ekki skapað næga spennu.

Í grein sinni telur aðalritstjóri altinget.no líklegt að Marie Sneve Martinussen verði kjörin formaður í stað Moxnes. Innra flokksstarfið hafi hvílt á hennar herðum.

Hún nefnir einnig Mími Kristjánsson stórþingsmann til sögunnar. Faðir hans er íslenskur. Mímir lét verulega að sér kveða í æskulýðshreyfingunni í Rødt, hann er blaðamaður og rithöfundur. Er honum lýst sem „skapandi stjórnmálamanni“. Því megi velta fyrir sér hvort innan flokksins sé litið á hann sem of mikinn solospiller til að honum verði treyst fyrir formennskunni, á hinn bóginn blasi við að hann geti orðið góður varaformaður.

Smáflokkar eiga alls staðar velgengni sína undir sterkum forystumönnum. Þetta sjáum við hér, til dæmis þegar litið er til Flokks fólksins og nú Samfylkingarinnar. Þar eru vonir bundnar við að Kristrúnu Frostadóttur takist að rífa upp fylgi flokksins. Verði þeim sem hljóta stöðu pólitísku poppstjörnu hins vegar á í messunni og þegja um það eða ljúga beinlínis að samstarfsmönnum verður valdaskeiðið endasleppt.