11.8.2022 9:35

Norðurslóðir - Úkraínustríðið

Stríðið breytir hugmyndum um að nyrsta hluta jarðarkringlunnar mætti skilgreina sem einskonar friðarreit þar sem lambið og ljónið nytu hættulausra samvista.

Á þessari stundu getur enginn sagt með neinni vissu hver verða áhrif innrásar Vladimirs Pútins í Úkraínu á þróun mála á norðurslóðum. Þau verða mikil og munu breyta hugmyndum um að þennan hluta jarðarkringlunnar mætti skilgreina sem einskonar friðarreit þar sem lambið og ljónið nytu hættulausra samvista.

Sumarið 2017, fyrir fimm árum, kynntu kínversk stjórnvöld áform sín um að tengja siglingar á norðurslóðum pólitísku fjárfestingarstefnunni sem kennd er við belti og braut. Þáverandi sendiherra Kína hér á landi taldi að með vísan til stefnunnar væri „mikið svigrúm til að efla samvinnu Kína og Íslands“.

Kínversk stjórnvöld sögðust þá fús til að starfa með öllum aðilum að vísindalegum rannsóknum á siglingaleiðum í norðri; að því að reisa landstöðvar til rannsókna- og mælinga; að því að rannsaka loftslags- og umhverfisbreytingar á norðurskautinu og jafnframt að því að koma á fót spáþjónustu í þágu siglinga. Þau vildu gera ráðstafanir í þágu skipaferða og hvetja kínversk fyrirtæki til að eiga aðild að kaupskipasiglingum á Norður-Íshafi.

Ekkert af þessu er á dagskrá núna. Rússar og Kínverjar völdu þá leið með stríðinu í Úkraínu að einangrast jafnt á norðurslóðum sem annars staðar. Kínverjar fjárfestu í rússneskri olíu- og gasvinnslu á Jamal-skaga við Norður-Íshaf. Þar hefur einnig verið treyst á samvinnu við vestræn fyrirtæki um aðgang að tækni og þekkingu. Hún er úr sögunni og þar með lækkar risið á öllu sem að var stefnt á þessum slóðum. Áætlanir um mikla flutninga eftir siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland eru einnig allar í molum.

Rússar fara með formennsku í átta ríkja Norðurskautsráðinu en allt pólitískt samstarf þar hefur verið sett á ís. Þeir sitja einir að þeim verkefnum sem boðuð höfðu verið undir formennsku þeirra.

24170957-denmark-donor-conference-for-uFrá ráðstefnunni til stuðnings Úkraínu (d. donorkonference) í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn í dag (11. ágúst).

Áhugamenn um þróun fjárfestinga og viðskipta á norðurslóðum hafa lengi kvartað undan því að Bandaríkjastjórn færi sér hægt og léti sig of litlu varða að Kínverjar létu þar æ meir að sér kveða í skjóli Rússa. Mörg ummæli áhrifamanna um mótun stefnu Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum bentu til þess að þeir teldu almennt litla hættu stafa af Rússum, þeir væru bensínsalar sem montuðu sig af kjarnorkuvopnum.

Inntak þessarar kaldhæðni hefur skýrst undanfarna mánuði. Rússneski landherinn má sín lítils andspænis háþróuðum landherjum. Það er erfitt fyrir Evrópuþjóðir sem stundað hafa orkuviðskipti við Rússa að snúa sér til annarra seljenda. Pútin hótar öðru hverju með kjarnorkuvopnunum þyki honum að sér þrengt. Þegar til þeirra er litið gegnir Norðurflotinn á Kólaskaga lykilhlutverki og þar með hafsvæðin suður að landi okkar. Þar eigum við sameiginleg landamæri með Rússum. Okkur ber að leggja það af mörkum sem við getum til gæslu þeirra.

Hér skortir markvissar umræður um þessa þróun alla og framlag okkar. Þær eru miklu meiri annars staðar, til dæmis í Kaupmannahöfn í dag (11. ágúst) þar sem fulltrúar 26 ríkja koma saman til að ákveða næstu skref í stuðningi sínum við Úkraínumenn og her þeirra.