14.4.2023 9:36

Norðmenn reka Rússa

Það er óskynsamleg afstaða að reka ekki Rússa héðan af ótta við að þá lokist íslenska sendiráðið í Moskvu. Með því er Rússum skapað hér skjól.

Þegar krafist er brottrekstrar rússneskra sendiráðsmanna héðan er þeim rökum stundum hreyft að reki íslenska ríkisstjórnin einhverja Rússa úr landi og rússnesk stjórnvöld svari í sömu mynt, eins og líklegt er, verði að loka íslenska sendiráðinu í Moskvu. Þessi afstaða er óskynsamleg þegar Rússar eiga í hlut, hún skapar þeim skjól hér. Lokun sendiráðs okkar í Moskvu breytir engu við núverandi aðstæður þegar tvíhliða samskipti ríkjanna eru lítil sem engin. Þá má fela sendiráði annars ríkis í Moskvu að taka að sér nauðsynlega hagsmunagæslu, þannig er málum háttað í flestum löndum heims.

Því er á þetta minnt hér og nú vegna þess að í gær (13. apríl) ráku norsk stjórnvöld 15 rússneska njósnara úr landi sem störfuðu þar í skjóli rússneska sendiráðsins í Osló. Þrír Rússar voru reknir heim úr sama sendiráði í fyrra. Norska utanríkisráðuneytið sagði að nú væru 19 manns í sendiráði Norðmanna í Moskvu og svöruðu Rússar með brottrekstri 15 þeirra mætti enn halda úti starfsemi í sendiráðinu. Staða Norðmanna í samskiptum við Rússa er önnur en okkar þar sem þeir eiga sameiginleg landamæri með Rússum á landi og sjó.

Downloadrussaer

Í danska ríkisútvarpinu, DR, var af þessu tilefni rætt við Thomas Wegener Friis, forstöðumann Center for Koldkrigsstudier på Syddansk Universitet og sérfræðing í njósnamálum. Hann segir að brottrekstur 15 sendiráðsmanna fyrir ólögmæta og óvinveitta starfsemi sýni að mikil alvara sé á ferðum. Til að gefa Rússum viðvörun hefði verið nóg að senda einn, tvo eða þrjá úr landi.

Norska ríkisútvarpið NRK segir að í hópi brottreknu mannanna séu að minnsta kosti fjórir liðsmenn GRU, njósnastofnunar rússneska hersins.

Thomas Wegener Friis segir ekki auðvelt að svara spurningunni um hvar mörkin liggi milli eðlilegra starfa stjórnarerindreka (diplómata) og njósnara. Í hlut njósnara komi þó að halda úti leynilegu neti trúnaðarmanna og ráða útsendara meðal heimamanna. Almennt sinni venjulegir diplómatar ekki slíkum verkefnum.

Hann telur að við „venjulegar aðstæður“ hefðu Norðmenn látið við það sitja að fylgjast náið með ferðum og gjörðum Rússanna fimmtán í stað þess að vísa þeim úr landi. Norski utanríkisráðherrann hafi einnig rökstutt ákvörðunina í gær með því að vísa til verra ástands í öryggismálum og meiri ógnar en áður vegna leynilegra athafna Rússa.

Þegar blaðamenn spurðu ráðherrann hvað hefði nákvæmlega ráðið ákvörðuninni um brottvísun núna var þeim vísað á öryggislögregluna. PST, sem benti aftur á utanríkisráðuneytið – það liggur því ekkert fyrir af opinberri hálfu í Noregi um eitthvert sérstakt tilefni nú.

Danir vísuðu 15 Rússum úr landi í fyrra. Thomas Wegener Friis segir að við slíku eigi að búast þegar stríð er háð í Evrópu þótt það komi honum á óvart hve mörgum Rússum sé vísað á brott víða í Evrópu og hve yfirvöld einstakra landa séu fús að upplýsa um brottreksturinn opinberlega.

Hann telur viðhorf vestrænna ríkisstjórna vegna njósnamála í garð Rússa verra en gagnvart sovétstjórninni á sínum tíma. Hver brottrekstur skapi mikinn þrýsting, uppnám og vandræði í höfuðstöðvunum í Moskvu. Íslensk stjórnvöld ættu að endurskoða afstöðu sína gagnvart rússneska sendiráðinu hér.