17.9.2023 10:32

Njósnakapphlaup með gervigreind í geimnum

Þegar svo er komið eins og hér er lýst verður ekki hjá því komist fyrir ríkisstjórnir annarra landa að líta í eigin barm og huga að þjóðaröryggi sínu í þessu ljósi.

Gagnkvæmar njósnir Kínverja og Bandaríkjamanna taka á sig nýja mynd vegna tækniframfara og stjórnarstefnunnar sem fylgt er af Xi Jinping Kínaforseta sem vill láta að sér kveða um heim allan af auknum þunga.

Í grein í The New York Times (NYT) sunnudaginn 17. september er fjallað ítarlega um þessa þróun. Þar segir að kínverski njósnabelgurinn sem sveif inn yfir Bandaríkin en ætlað var að afla upplýsinga um bandarísk umsvif á Kyrrahafseyjunni Guam og á Hawaii-eyjum hafi dregið athygli að hálofta- og geimnjósnum stórveldanna.

Blaðið segir að atvikið hafi leitt í ljós að kínverskir herforingjar hafi ekki sagt Xi frá belgnum fyrr en hann var yfir Bandaríkjunum. Þá hafi Xi refsað herforingjunum, einkum vegna þess að atvikið gæti spillt fyrir fyrirhuguðum viðræðum við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

NYT segir að á sama tíma og Kínverjar færist sífellt meira í fang við njósnir um Bandaríkin sé Bandaríkjastjórn jafnframt að efla njósnir sínar um Kína. Þetta sé talið nauðsynlegt vegna aukinna hernaðarlegra og tæknilegra umsvifa Kínverja.

Á það er minnt að bæði ríkin treysti mjög á gervigreind við njósnir sínar og þess vegna sé miklu fé varið til rannsókna og þróunar á sviði hennar. Stjórnvöld beggja ríkja telji að nýting gervigreindar skipti sköpun til að halda forystu hernaðarlega, efnahagslega og við alla upplýsingaöflun.

6183bf216026227a2ce70c49_H9L_cmbQVZf1j_bP06HgMGGR58__f4gsknQ66skZd4Idp93ckUse0FPLQKw-1a_Z1iZ6EBIQ028hRfFULPBIPZkDWydnVBSScEwJlwAQrmRExScgSsbNW7ibgRYvw3mfPrDhv6PCNjósnir úr geimnum verða sífellt háþróaðri.

Bandarískir heimildarmenn NYT segja að greina megi víðtækari njósnir Kínverja á öllum sviðum sem falla undir þjóðaröryggi Bandaríkjanna, starfsemi utanríkisráðuneytis þeirra og viðskipti með hátækni. Til að bregðast við þessu hafi nýjar einingar komið til sögunnar innan CIA og annarra bandarískra leyniþjónustustofnana til að fylgjast með kínverskri njósnastarfsemi.

Nú er umfang gagnkvæmrar njósnastarfsemi beggja ríkja talið jafnvel meira en það var mest milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í kalda stríðinu og bæði ríki noti hátækni og háþróaðar aðferðir í aðgerðum sínum.

Þegar svo er komið eins og hér er lýst verður ekki hjá því komist fyrir ríkisstjórnir annarra landa að líta í eigin barm og huga að þjóðaröryggi sínu í þessu ljósi.

Breska ríkisstjórnin hefur til dæmis gripið til þess ráðs að loka fyrir notkun á öryggismyndavélum frá Kína á viðkvæmum svæðum í Bretlandi. Vitneskjan um að slíkar vélar megi nota til miðstýrðrar gagnaöflunar í þágu kínverskra njósnastofnana hræðir.

Þegar um þessi mál er rætt hér á landi kemur kínverska rannsóknarstöðin á Kárhóli í Reykjadal, skammt frá Laugum, í hugann en nú eru sjö ár frá því að lagður var hornsteinn að byggingu hennar. Enginn vafi er á að nýti kínverskar njósnastofnanir öryggismyndavélar til gagnaöflunar á Vesturlöndum er þessi stöð sem fylgist með umsvifum í geimnum gullmoli í þeirra augum. NYT segir einmitt að hátæknin geri Kínverjum kleift að nýta tæki í geimnum æ betur til eftirlits og njósna.