10.9.2020 9:51

Niðurrif í óþökk yfirvalda

Þegar atvik af þessu tagi verða eru fyrstu viðbrögðin venjulega þannig hjá opinberum aðilum að farið skuli yfir „verkferla“.

Á mbl.is birtist neðangreind frétt í dag (10. september):

„Hús við Skólavörðustíg 36 var rifið í gær. Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, sagði við Morgunblaðið að ekki hefði legið fyrir leyfi til þess að rífa húsið þar sem það nyti verndar byggðamynsturs.

Einungis hefði verið veitt leyfi til að bæta við einni hæð ofan á það en ekkert leyfi til niðurrifs hefði verið veitt. Sagði hann að fulltrúar færu á staðinn á fimmtudagsmorgun til að kanna málið.

Eigandi hússins sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrir hefðu legið öll tilskilin leyfi. Til hefði staðið að byggja hæð ofan á húsið en í ljós komið að burðarvirki þess þyldi það ekki vegna þess að einhverju áður hefðu gluggar verið skornir út á framhliðinni sem veiktu burðarvirkið. Því hefði húsið verið rifið og til stæði að byggja það aftur í upprunalegri mynd. Fullt samráð hefði verið haft við eftirlitsaðila. Þessu hafnar byggingarfulltrúi í Morgunblaðinu í dag.“

1228328Rústir hússins við Skólavörðustíg 36 (mynd Kristinn Magnússon mbl.is).

Þessi frétt minnir á frétt sem birtist í byrjun apríl 2016:

„Rúmlega hundrað ára hús við Tryggvagötu 12 hefur verið rifið í leyfisleysi. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur stöðvað framkvæmdir á reitnum vegna þessa og hafa eigendur sjö daga frest til að koma á framfæri skriflegum skýringum vegna málsins. Húsið var reist árið 1906 og er stundum nefnt Exeter-húsið.“

55DB7026D464914B783D8F1055C2D69F1A4EE6798709596ABEC2E1B425B1234F_713x0Rústir hússins við Tryggvagöru 12 (mynd Reykjavíkurborg).

Áður en Exeter-húsið var rifið lá fyrir heimild um að lyfta húsinu við um eina hæð og breyta formi þaks á bakhlið og gera viðbyggingu. Þar var um friðað hús vegna aldurs að ræða og lét Minjastofnun sig málið varða. Lögregla rannsakaði málið og voru verktakar ákærðir.

Það hafði einnig verið veitt heimild til að lyfta húsinu við Skólavörðustíg 36 um eina hæð áður en það var rifið.

Þegar atvik af þessu tagi verða eru fyrstu viðbrögðin venjulega þannig hjá opinberum aðilum að farið skuli yfir „verkferla“. Orðið er oft notað í fréttum til að binda enda á umræður um viðkvæm vandræðamál hverju nafni sem þau nefnast.

Almennt snýst svona vandræðagangur ekki um „verkferla“ heldur um hitt að ekki er farið að gildandi reglum, mannleg samskipti eru á þann veg að um misskilning er að ræða svo að ekki sé minnst á óvönduð vinnubrögð.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með gangi þess niðurrifsmáls sem nú verður í fréttum. Vonandi spyr einhver um það hvort „verkferlum“ hafi ekki verið breytt eftir niðurrifið á húsinu við Tryggvagötu 12.

Viðbrögð píratans Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, formanns skipulags- og umferðarráðs, skipta hér máli. Hún er skelegg og sparar ekki stóru orðin í stríðinu við fjölskyldubílinn sem hún vill af götum borgarinnar. Hvað segir hún þegar hús eru rifin í leyfisleysi?

Að heyrist í borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni vegna málsins er ólíklegt. Hann er jafnan vant við látinn þegar í vandræðamálum, það er fastur liður í „verkferlinum“. Lægra settir embættismenn verða að svara fyrir þau.