4.8.2022 9:46

Niðurlæging Schröders

Kanslarinn fyrrverandi sætir rannsókn innan Jafnaðarmannaflokksins. Rannsóknin beinist að tengslum hans við Kremlverja og hvers vegna hann neitar að slíta tengsl sín við Pútin.

Spjótin beinast nú enn að jafnaðarmanninum Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands 1998 til 2005, vegna tengsla hans við Vladimir Pútin en Schröder beitti sér á sínum tíma fyrir því að lagðar voru tvær gasleiðslur frá Rússlandi til Þýskalands og stofnað til mikilla orkuviðskipta milli landanna sem nú koma Þjóðverjum illilega í koll. Pútin beitir gasinu sem vopni gegn Þjóðverjum. Nord Stream 2 gasleiðslan var sett á ís eftir innrás Rússa í Úkraínu og nú flytur Nord Stream 1 leiðslan aðeins 20% af því magni sem hún ber.

Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lagði lykkju á leið sína miðvikudaginn 3. ágúst og fór í höfuðstöðvar þýska fyrirtækisins Siemens, stillti sér upp fyrir framan túrbínu sem notuð er til að dæla gasi um Nord Stream 1 og sagði Pútin og handbendi hans ljúga því að þeir fengju ekki túrbínuna, hún væri biluð. Scholz sagði að Rússar þyrftu bara að ganga frá sínum eigin formsatriðum þá fengju þeir túrbínuna.

Sama dag og fréttir eru sagðar um þessa afhjúpun Scholz á lygum Pútins birtist langt viðtal við Gerhard Schröder í tímaritinu Stern og útvarpsstöðinni RTL. Schörder notaði sumarleyfi sitt til að fara til Moskvu og átti einkafund með Vladimir Pútin. Segist Schröder ekki þurfa að biðja neinn afsökunar á vináttu sinni við Pútin.

Kanslarinn fyrrverandi sætir þó rannsókn innan Jafnaðarmannaflokksins þar sem hann hefur verið félagi síðan 1963. Rannsóknin beinist að tengslum hans við Kremlverja og einnig er leitað skýringa á hvers vegna hann neitar að slíta tengsl sín við Pútin. Kann niðurstaða rannsóknarinnar að leiða til þess að Schröder verði rekinn úr Jafnaðarmannaflokknum.

62435349_303Gerhard Schröder og Vladimir Pútin eru gamlir vinir.

Í samtalinu sem nú birtist gefur Schröder engar upplýsingar um hvað vakir í raun fyrir Pútin en telur þó að viðræður þeirra gefi til kynna að deilan við Rússa sé „leysanleg“ en til þess þurfti meiri viðræður – sem Þjóðverjar og Frakkar eigi að leiða – auk þess verði Vestrið að sýna Rússum meiri skilning vegna „raunverulegs ótta um að lokast inni“ af óvinveittum þjóðum.

Schröder telur að Úkraína eigi að verða hlutlaus eins og Austurríki og landið eigi að skiptast í héruð svipað og Sviss skiptist í kantónur. Báðir aðilar verði að sýna vilja til málamiðlunar. Hann vildi á hinn bóginn ekki ræða grimmdarverk rússneskra hermanna í Úkraínu eins og fjöldamorðin í Butsja; mannfall meðal almennra borgara um alla Úkraínu vegna sprengjuárása Rússa á verslanamiðstöðvar eða aðra staði þar sem almenningur er á ferð; hernám Rússa í austur og suður hlutum Úkraínu; nauðungarflutninga þúsunda Úkraínumanna til Rússlands og ásakanir um að á þennan hátt vilji Kremlverjar uppræta heimamenn til að setja þar niður Rússa.

Ummæli Schröders um lausn á orkuvandanum sem blasir við Þjóðverjum sýna að hann gengur þar áfram erinda Pútins, hann skellir skuldinni á „biluðu“ túrbínuna og Siemens, þá sé minnsta mál að opna Nord Stream 2 gasleiðsluna, bara að skrúfa frá, hún bíði tilbúin.

Þetta gengur þvert á stefnu þýsku ríkisstjórnarinnar og með orðum sínum magnaði Schröder enn reiði reiði í eigin garð innan gamla flokksins síns. Höfuðið beit hann síðan af skömminni þegar hann sagðist ekki ætla að segja skilið við Pútin: „Ég spyr hverjum yrði það að gagni að persónulega fjarlægðist ég Vladimir Pútin? ... Ég get kannski orðið að einhverju gagni. Hvers vegna ætti ég þá að biðjast afsökunar?“

Hvað sem öðru líður opinberar þessi afstaða Schröders að afsakendur Pútins eru víða og á ólíklegustu stöðum. Það eykur ekki virðingu Schröders á heimavelli eða annars staðar að hann fær mikla fjármuni greidda frá Pútin fyrir þessa þjónkun sína.