3.9.2020 10:00

Nettröll gegn Navalníj

Nettröll blanda sér í umræður á samfélagsmiðlum til að fegra Pútin og hvítþvo Rússa.

Angela Merkel Þýskalandskanslari stígur almennt varlega til jarðar og gefur sjaldan harðorðar yfirlýsingar þeim mun meiri athygli vekur reiði hennar og hneykslun í garð rússneskra yfirvalda vegna morðtilræðisins við Alexei Navalníj, heimskunnan andstæðing Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

Þjóðverjar björguðu Navalníj frá sjúkrahúsi í Omsk í Síberíu 22. ágúst. Þar lá hann í dái en rússneskir læknar með fulltrúa rússnesku öryggislögreglunnar FSB inni á gafli hjá sér neituðu alfarið að eitrað hefði verið fyrir honum. Miðvikudaginn 2. september var kynnt niðurstaða sérfræðinga þýska hersins eftir rannsókn á lífssýni úr Navalníj. Hann hafði orðið fyrir árás með taugaeitrinu novichock sem aðeins er til í Rússlandi, sama eitrinu og rússneskir útsendarar beittu gegn Skripal-feðginunum í Salisbury á Englandi í mars 2018.

Liður í árásunum eru tilraunir til að fela slóðina. Draga upp þá mynd að fráleitt sé að gruna Pútin og menn hans um óhæfuverkin. Nettröll blanda sér í umræður á samfélagsmiðlum til að fegra Pútin og hvítþvo Rússa.

Navalny-sarcophagus-800x450Navalníj á leið inn á Charité-sjúkrahúsið í Berlín.

Eftir að frétt birtist á visir.is um að Guðlaugur Þ. Þórðarson utanríkisráðherra hvetti rússnesk yfirvöld til að heimila alþjóðlega rannsókn á eiturárásanni á Navalníj, birtust athugasemdir við fréttina á Facebook. Meðal þeirra sem skrifaði var Magnús Sigurðsson sem á fjóra Facebook-vini, býr í Reykjavík og birtir huldumynd á síðu sinni. Hann segir meðal annars:

„Ég held að Skripal feðginin og Alexei Navalní séu bara peð á þessutaflborði. Málið snýst alls ekki um ást stjórnvalda vesturlanda á einhverju

fólki þar eystra sem stjórnvöld eru vond við. Það eru leiktjöld og blekking.Málið snýst um að fanga athygli heimsins og hrópa (réttilega) mannréttindabrot [...]

Það sem ég skil ekki hvers vegna Rússar ættu að nota aðferðir semverða raktar beint til þeirra...og aðeins þeirra? Ekki þannig að ég sé neinn expert í þessum fræðum, en sagan sýnir að mikið klókara er að hreinlega skjóta fórnarlambið og losa sig við skotvopnið.[...] Ekkert vegabréf einhverrar þjóðar sem lagði til eitthvert eitur sem sem sú þjóð ein hafði yfir að ráða. Mér finnst slíkt athæfi ekki bara ósennilegt heldur beinlínis heimskulegt.[...]

Það sem ég fæ ekki til að ganga upp í þessu andstyggðar máli er eftirfarandi:

1.) Nú verður vart um það deilt að Rússar eru mikil menningarþjóð frá fornu fari og í fremstu röð á ýmsum sviðum svo sem tónlist, ballet, bókmenntum, læknisfræði, eðlis og efnafræði.

Hvernig má það vera að forráðamönnum slíkrar þjóðar komi ekkert frumlegra til hugar, í tilburðum sínum við að losna við skæðan andstæðing, en að nota til þess eitur sem engin önnur þjóð í veröldinni hefur yfir að ráða? Ekki mjög djúpt hugsað verð ég að segja.

Hvað finnst ykkur?“

Þessi texti er skólabókardæmi um texta sem notaður er í fjölþátta (e. hybrid) aðgerðum. Nefnd þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu ætti að kynna sér og læra af umræðum um eiturárásina á Alexei Navalníj á samfélagsmiðlum.