4.2.2019 10:20

Netöryggi ógnað á Tonga

Þótt aðeins 0,001% líkur væru taldar á að fjarskiptastrengurinn til Tonga rofnaði gerðist það, í 12 daga ríkti „stafrænt myrkur“.

Farice ehf. á og rekur fjarskiptasæstrengina FARICE-1 og DANICE sem tengja Ísland við Evrópu. Nú hefur Fjarskiptasjóður samið við fyrirtækið um botnrannsóknir vegna IRIS, þriðja strengsins, sem yrði lagður frá Grindavík til Kilalla á vesturströnd Írlands.

Gert er ráð fyrir að rannsóknarskip ljúki kortlagningu sjávarbotns síðla sumars með það fyrir augum að heildstæð niðurstaða rannsóknarinnar liggi fyrir fljótlega í kjölfarið. Á þeim grundvelli verða teknar ákvarðanir um framhaldið.

Ae6efc12f93f425893481f4c3c15a8d7_18Um svipað leyti og sagt var frá þessu í fyrri viku bárust fréttir frá Kyrrahafseyríkinu Tonga um að mannlíf þar væri allt úr skorðum vegna þess að fjarskiptastrengur hefði verið skorinn í sundur. Ábyrgðarmaður strengsins segist ekki geta útilokað að um skemmdarverk sé að ræða.

Í dag (4. febrúar) bárust fréttir um að áhöfn viðgerðaskips hefði fyrst fundið tvö sundurbrot á ljósleiðaranum og nokkrum kílómetrum fjær tvö önnur brot og kaðal á streng sem tengir höfuðeyju Tonga við nágrannaeyjur en eyríkið nær til meira en 170 eyja.

Rof á þessu sambandi við Tonga stóð í 12 daga en eyríkið tengdist umheiminum að nýju laugardaginn 2. febrúar. Segir í fjölmiðlum að erfitt hafi verið fyrir um 100.000 íbúa konungsríkisins Tonga að búa svo lengi í „stafrænu myrkri“.

Til bráðabirgða tókst að stofna takmarkað gervihnattasamband en aðgangur að almennum tölvupósti lá niðri, enginn aðgangur var að Facebook, Youtube eða netmiðlum. Þá var ekki unnt að stunda viðskipti með kortum og alþjóðlegt símasamband var stopult.

Haft var eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að þetta hefði komið sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, einkum fyrstu dagana. Bankar, flugfélög og stjórnarskrifstofur lentu í miklum erfiðleikum.

Það var ekki fyrr en árið 2013 sem ljósleiðari var lagður neðansjávar til Tonga, hann tengir eyríkið við streng sem liggur milli Ástralíu, Nýja-Sjálands, Fiji-eyja og Bandaríkjanna.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að enginn hefði í raun átt von á að þetta gæti gerst. Þegar strengurinn var lagður hefði verið sagt að 0,001% líkur væru á óförum af þessu tagi.

Hér á landi er ekki aðeins netsamband eins og það sem að ofan er lýst í húfi rofni fjarskiptastrengir til landsins. Gagnaver skipta orðið miklu máli í hagkerfinu og þau krefjast 100% öryggis í netsambandi eða fara annað.

Netöryggismenn á Íslandi ættu að kynna sér náið hvaða áhrif rof á netsambandi hafði á Tonga.