Netið eflir bókaútgáfu
Netið er ekki aðeins til þess fallið að hlaða niður bókum, prentuðum eða lesnum, heldur einnig til að ýta undir útgáfu bóka.
Samtal á dögunum um bókaútgáfu við menn sem eru gjörkunnugir henni snerist um hljóðbækur og spurninguna um hvort þær ýttu prentuðum bókum úr sessi. Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri hljóðbókaútgáfunnar Storytel á Íslandi (fyrirtækið er sænskt), sagði fyrir um mánuði í samtali við Morgunblaðið að miðað við greiðslur frá endurgreiðslunefnd bóka sé Storytel nú annar stærsti framleiðandi bóka á Íslandi.
Lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku tóku gildi í fyrra en markmið þeirra er að efla bókaútgáfu vegna mikilvægis hennar fyrir íslenska tungu og eflingu læsis. Útgefendur geta nú sótt um endurgreiðslu á 25% kostnaðar sem hlýst af útgáfu bóka.
Penninn/Eymundsson rekur margar bókaverslanir og í Morgunblaðinu sakaði Ingimar Jónsson, forstjóri fyrirtækisins, Storytel um að skjóta sér undan skattgreiðslum hér á landi samhliða því að hljóta endurgreiðslu úr ríkissjóði. Af hálfu Storytel var þessum ásökunum hafnað.
Hér skal þessi deila ekki rakin enda hlýtur að verða úr henni skorið af þeim sem til þess hafa skyldur, umboð og vald.
Enn sem komið er hef ég ekki hlaðið bókum í símann minn til að hlusta á lestur þeirra. Á hinn bóginn hef ég í nokkur ár keypt Kindle-bækur af Amazon. Reynsla mín er að við það hafi kviknað áhugi á að eignast sömu bækur einnig prentaðar til að geta grandskoðað efni þeirra. Allt selur þetta hvert annað.
Netið er ekki aðeins til þess fallið að hlaða niður bókum, prentuðum eða lesnum, heldur einnig til að ýta undir útgáfu bóka. Undanfarið hef ég fylgst með hvernig nota má síðuna Karolinafund til að safna áskrifendum að bók og tryggja þannig nægilegt fé til að standa undir kostnaði við útgáfu hennar.
Oleg Gordijevskij
Tilefni þess að hugurinn hvarflaði að þessu núna er umsögn á dönsku vefsíðunni altinget.dk um bókina um Rússann Oleg Gordijevskij eftir Ben Macintyre sem kom út á ensku árið 2018 undir heitinu The Spy and the Traitor en hefur nú komið út hjá Gyldendal í Danmörku, Spionen og forræderen.
Þessa bók las ég á Kindle og tek undir með Andreas Krog á Altinget sem gefur bókinni sex stjörnur. Hann segir undir lok umsagnar sinnar að ekki sé nóg með að söguefnið sé einstakt heldur skrifi Ben Macintyre frábæran og grípandi texta sem sé reistur á umfangsmikilli rannsókn og samtölum við fjölda manna sem áttu hlut að máli þar á meðal Oleg Gordijevskij sjálfan. Hann býr nú í einu af úthverfum London.
„Spionen og forræderen á að vera efst í bunka bókanna til að lesa í sumar. Svo einfalt er það,“ segir Krog í lokin. Undir það skal tekið og lýst yfir undrun ef enginn útgefandi hér hefur áttað sig á gildi þess að gefa út sanna njósnasögu sem tekur fram öllum spennusögum.