24.6.2024 10:04

Netárás á Árvakur

Talið er að rússneskir tölvuþrjótar í glæpagengi sem nefnist Akira standi að baki árásinni á Árvakur. Akira réðst á Háskólann í Reykjavík fyrir nokkrum mánuðum.

Alþingi hafði ekki fyrr samþykkt löngu tímabærar breytingar á lögreglulögunum, þar sem heimildir lögreglu til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og hvers kyns afbrotum sem framin eru á netinu voru auknar en fréttir bárust af netárás á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Starfsmenn blaðsins lýsa henni sem grafalvarlegri. Það er aðeins fyrir snarræði og útsjónarsemi sem tókst að dreifa prentaðri útgáfu blaðsins í dag, mánudaginn 24. júní. Þegar þetta er skrifað að morgni mánudagsins er ekki unnt að komast inn á vefsíðu blaðsins, mbl.is. Hún lá niðri í þrjár klukkustundir sunnudaginn 23. júní.

Talið er að rússneskir tölvuþrjótar í glæpagengi sem nefnist Akira standi að baki árásinni á Árvakur. Akira réðst á Háskólann í Reykjavík fyrir nokkrum mánuðum.

Hópurinn lætur veiru sína liggja í leyni eftir að hafa grafið hana inn í tölvukerfi fórnarlambsins og virkjar hana til atlögu sjái hann tækifæri til að ná undir sig rafrænum gögnum viðkomandi fyrirtækis eða einstaklings. Gögnin neitar hann að afhenda nema gegn greiðslu. Eru þessi glæpaverk kennd við gíslatöku sem gerð er til að kúga fé út úr fyrirtækjum.

Akira-hópurinn er sagður sérhæfa sig í árásum á lítil og meðalstór fyrirtæki einkum í Evrópu, Ameríku og Ástralíu. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) telur að frá því í mars 2023 þar til í þessum mánuði hafi Akira brotist inn í tölvukerfi rúmlega 250 fyrirtækja og haft um 42 milljónir dollara upp úr krafsinu með því að beita gíslatökuaðferðinni.

Það er liður í glæpum af þessum toga að þeir sem stunda þá leggja hart að sér við að fela slóð sína en vegna margra afbrota telja sérfróðir menn sig þekkja handbragð Akira-manna.

Screenshot-2024-06-24-at-10.02.58

Mikil reynsla er fyrir hendi hjá lögregluyfirvöldum annars staðar á Norðurlöndunum í átökum við rússneska tölvuþrjóta. Með samþykkt breytinganna á lögreglulögunum fær ríkislögreglustjóri auknar heimildir til afbrotavarna á þessu sviði fyrir utan að geta dýpkað norrænt samstarf sitt og nýtt sér betur reynslu lögregluliða í öðrum löndum.

Engin innlend yfirvöld hafa sambærilegar heimildir í þessu efni og lögreglan og hlýtur skipulag netvarna að taka mið af því og einnig hinu að opinberir aðilar mega sín í raun lítils við slíkar varnir án samstarfs við einkaaðila, þar er þekkingin og búnaðurinn sem dugar best í átökum við netglæpalýðinn.

Að verja friðhelgina á netinu er í þágu allra borgara landsins því að hvergi er netaðgangur jafn almennur og hér. Hver og einn verður að huga að sínum vörnum og öryggiskerfi og treysta á ráð þeirra sem best þekkja í því efni. Einkarekin fyrirtæki eru best til þess fallin að þróa tæknilegar lausnir til varna og beita þeim en valdið gegn lögbrjótum er á hendi lögreglu og nú hefur hún víðtækari heimildir í því efni en áður.

Hvarvetna á Vesturlöndum er varað við auknum hernaði Rússa í netheimum. Þar verðum við að verjast eins og aðrir og finna þá leið til þess sem best hentar en til þess verða einkaaðilar og lögregla að taka höndum saman.