17.2.2023 9:37

Neitunarvaldi Eflingar hafnað

Að stjórn Eflingar hafi neitunarvald gagnvart miðlunartillögu ríkissáttasemjara er markleysa.  Sé neitunarvaldið viðurkennt með aðgerðarleysi af embætti ríkissáttasemjara leiðir til eyðileggingar á því.

Fréttir bárust um það að kvöldi fimmtudags 16. febrúar að dynjandi lófatak hefði heyrst af fundi fjölmennrar samninganefndar Eflingar í húsakynnum ríkissáttasemjara. Var verið að fagna frestun verkfallsins?

Samtök atvinnulífsins (SA) settu sem skilyrði fyrir framhaldi viðræðna við Eflingu að aflýst eða frestað yrði verkföllum. Fyrst var frestur til að svara ákveðinn til kl. 18.00, síðan farið að ósk Eflingar um að hann yrði lengdur til kl. 19.00 en það var ekki fyrr um kl. 21.00 sem Efling tilkynnti frestun verkfalla fram á kvöld sunnudags 19. febrúar. SA lét sér það lynda og settur sáttasemjari, Ástráður Haraldsson, setti þagnarskyldu og fjölmiðlabann á deiluaðila um leið og hann boðaði til sáttafundar kl. 10.00 föstudaginn 17. febrúar.

Enginn samningur er í sjónmáli og af fréttum má ráða að margir óttist að þetta sé aðeins nýr þáttur í þráteflinu sem Efling hefur stjórnað síðan 3. desember 2022 þegar 18 félög Starfsgreinasambandsins sömdu, Efling er að nafninu til í því sambandi þótt það sé Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni ekki að skapi, að minnsta kosti ekki þessa stundina. Hjá henni er Vilhjálmur Birgisson, formaður sambandsins, í sömu skúffu og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Þeir eru ekki húsum hæfir.

Sólveig Anna neitaði að afhenda kjörskrá vegna ákvörðunar ríkissáttasemjara um að greidd yrðu atkvæði um miðlunartillögu hans. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu með vísan til sáttar við afgreiðslu laga þegar embætti sáttasemjara ríkisins var stofnað vorið 1978, að Eflingu væri ekki skylt að afhenda kjörskrána.

A2023-02-17_w272

Þegar grannt er skoðað vakti það ekki fyrir Alþýðusambandi Íslands á þeim tíma að sáttin sem náðist um þetta á alþingi fyrir 45 árum jafngilti því að stjórn einhvers verkalýðsfélags fengi neitunarvald gegn miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Felist það í dómi landsréttar sem féll í vikunni er hann rangur. Vegna þess um hve viðkvæmt mál er hér að ræða verður að áfrýja þessum dómi til hæstaréttar.

Á málinu er einnig sú hlið sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður reifar í grein í Morgunblaðinu í dag (17. febrúar), að nú hafi forysta Eflingar komið í veg fyrir að ríkissáttasemjari geti borið miðlunartillögu sína undir félagsmenn Eflingar. Þar með sé ljóst að félagsmennirnir eigi þess ekki kost að fella miðlunartillöguna. Hún verði því ekki felld í atkvæðagreiðslu.

Að mati Jóns Steinars felst í þessari atburðarás „að kominn er á samningur með því efni sem felst í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, þar sem félagið sem í hlut á hefur ekki fellt hana á þann hátt sem lögin kveða á um“.

Lögmaðurinn telur að af því leiði að Eflingu sé „ekki heimilt að halda uppi verkfalli því sem nú hefur gengið í garð“. Jón Steinar telur ekki heldur sérstaka „þörf á að halda samningafundi á vettvangi ríkissáttasemjara, þó að slík fundarhöld séu svo sem aðilum heimil“.

Að stjórn Eflingar hafi neitunarvald gagnvart miðlunartillögu ríkissáttasemjara er markleysa. Sé neitunarvaldið viðurkennt með aðgerðarleysi af embætti ríkissáttasemjara leiðir til eyðileggingar á því.