31.5.2023 9:09

Nefndarformaður á röngu róli

Þetta svar formanns utanríkismálanefndar ber með sér algjört virðingarleysi fyrir meginreglunni sem Betty Boothroyd hafði að leiðarljósi sem þingforseti.

Betty Boothroyd, sem lést háöldruð nú í febrúar, varð fyrst kvenna til að sitja á forsetastóli neðri deildar breska þingsins. Var hún kjörin til þess háa embættis 1992 og sat til ársins 2000. Við hana birtust mörg viðtöl á meðan hún gegndi stöðu þingforseta. Þar lýsti hún meðal annars þeirri skoðun að æðsta hlutverk forsetans væri að tryggja að vilji meirihluta þingsins næði fram að ganga. Það væri í anda lýðræðis og þingræðis, hornsteina breskrar stjórnskipunar.

Þessi orð komu í hugann þegar litið var á forsíðu Morgunblaðsins í dag (31. maí) þar sem sagt er frá samtali við þingmann vinstri-grænna, Bjarna Jónsson, formann utanríkismálamefndar alþingis sem segir „að ekkert hafi komið fram um hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir 30 ár. Málið varði mögulega stjórnarskrá og vanda þurfi alla málsmeðferð.„Ég verð bara að vera heiðarlegur við þig og segja ég veit það ekki,“ svarar Bjarni“.

Þetta svar formanns utanríkismálanefndar ber með sér algjört virðingarleysi fyrir meginreglunni sem Betty Boothroyd hafði að leiðarljósi sem þingforseti. Nefndarformanninum ber að leyfa meirihlutavilja þingmanna að ráða för en ekki einkaskoðun sinni sem auk þess er reist á ómálefnalegum rökum. Nægir því til stuðnings að vitna til skoðana sem birtast í meirihluta þeirra 19 umsagna sem utanríkismálanefnd hafa borist vegna þessa máls. Að segja þetta mál frekar varða stjórnarskrána en önnur sem fyrir þingið koma stenst ekki, hér er um mál að ræða sem snertir alfarið innlenda löggjöf sem sprottin er af þjóðréttarlegum skuldbindingum vegna EES-samningsins.

1310639Bjarni Jónsson, fomaður utanríkismálanefndar alþingis (mynd: mbl.is)

Alþýðubandalagið, forveri vinstri-grænna (VG), var á móti EES-aðildinni á sínum tíma en í skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem kom út í mars 2007 lýsti VG eindregnum stuðningi við EES-aðildina.

Varað hefur verið við því að stjórnarandstæðingar séu kjörnir til formennsku í þingnefndum af ótta við að þeir beiti valdi sínu til að standa gegn því að meirihlutavilji þingheims nái fram að ganga. Þess eru þó ekki dæmi að þeir hafi gengið fram fyrir skjöldu á þann veg sem formaður utanríkismálanefndar alþingis gerir vegna einkaskoðunar sinnar varðandi það mál sem hér um ræðir.

Í viðtalinu við Morgunblaðið lýsir Bjarni Jónsson breytingu á afstöðu sinni til öryggis- og varnarmála vegna kynna sinna af stríðsaðgerðum Rússa í Úkraínu. Hann segir meðal annars:

„Við lifum í ákveðnum veruleika í dag. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og erum í tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin. Meirihluti þjóðarinnar hefur viljað gera það. Eins og staðan er núna í heiminum, þá sé ég ekki ástæðu til þess að hrófla við því í bili.“


Þarna vill formaðurinn þó virða meirihlutavilja þjóðarinnar þótt hann vilji ekki að meirihlutavilji alþingis til stuðnings frumvarpi utanríkisráðherra nái fram að ganga fyrr en honum sjálfum þóknast sem nefndarformanni.

Þetta er jafnfurðuleg afstaða og að hann sé „friðarsinni“ þótt hann geti að eigin sögn ekki lokað augunum fyrir raunveruleikanum. Þá fyrst tryggja menn frið viðurkenni þeir raunveruleikann!