1.2.2021 10:44

Navalníj ögrar Pútín

Þeir sem taka að sér hér eða annars staða að rægja Alexei Navalníj til að upphefja Vladimir Pútin eiga erfitt verk fyrir höndum.

Það mátti lesa furðulega grein á Facebook eftir fyrrverandi íslenskan fréttamann þar sem hann birti neyðarlega gagnrýni á Alexei Navalníj, stjórnarandstæðing í Rússlandi. Hann væri hálfgerður tilbúningur vestrænna áróðursmiðla og mætti sín í raun einskis í Rússlandi þar sem almenningur treysti á Vladimir Pútin. Þessum furðuskrifum miðlaði síðan fyrrverandi blaðamaður og sagðist taka meira mark á þeim en því sem segði til dæmis í fréttum ríkisútvarpsins um það sem nú ber hæst í Rússlandi: fjöldamótmæli gegn Pútín.

Þessa texta má líta á sem dæmi um miðlun falsfrétta, annars vegar til að fegra ímynd Pútins utan Rússlands og hins vegar til að grafa undan trausti í garð fjölmiðla sem birta aðrar fréttir en þær sem Kremlverjum líkar. Þess eru víða dæmi að menn taka að sér að skrifa „fréttir“ eða „fréttaskýringar“ á samfélagsmiðla til að þjóna einstökum fyrirtækjum, málstað eða ríkjum. Til að ná árangri felst galdurinn í því að miðlunin undir falska flagginu sé svo lymskuleg að erfitt sé að átta sig á hvers kyns er.

Þeir sem taka að sér hér eða annars staða að rægja Alexei Navalníj til að upphefja Vladimir Pútin eiga erfitt verk fyrir höndum og ættu að byrja á því að hvetja Pútin, umbjóðanda sinn, til að hætta að fangelsa þá eða eitra fyrir þeim sem hann telur ógna sér á einhvern hátt.

Tvo sunnudaga í röð 24. og 31. janúar var óeirðalögreglu sigað á almenning í borgum og bæjum um allt Rússland, fólk sem fór út á götur og torg til þess að láta í ljós óánægju með fangelsun Navalníjs og með stjórnarhætti Pútins. Miðað við hve margar þúsundir manna voru teknar höndum er ekki nokkur vafi á að fjöldi mótmælenda var mikill.

56396470_303Rússnesk óeirðalögregla við störf í Moskvu.

Þegar hlustað er á ummæli fólks sem vestrænir fréttamenn taka tali í mótmælaaðgerðunum er ljóst að Navalníj og frelsun hans er viðmælendunum ekki endilega efst í huga. Á vefsíðu þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle (DW) má til dæmis lesa í frétt um mótmælin sunnudaginn 31. janúar:

„Fullorðna fólkið er vant fyrirmælum um hvað því ber að gera, að lúta stjórn. Unga fólkið er hins vegar vant að ráða sér sjálft, þess vegna kom ég hingað í dag. Ég vil eiga hlut að því sem gerist í landi mínu – ég verð að búa hér,“ sagði ungur mótmælandi við Emily Sherwin, fréttaritara DW.

„Þetta er hneyksli! Þeir hafa stolið öllu frá okkur. Ég bý rétt hjá olíulindum og þeir gera ekki annað en stela af þjóðinni!“ sagði kona.“

Reiði blossaði upp eftir að Alexei Navalníj birti tæplega tveggja tíma myndband til að afhjúpa spillingu Púitins og hvernig hann hefur auðgast í samvinnu við undirheimamenn og gamla KGB-samstarfsmenn ­– auður hans og valdagræðgi sé sýnileg í glæsihöll og víggirtri umgjörð hennar á skaga við Svartahaf.

Tveir einræðisherrar í nátengdum nágrannaríkjum standa nú andspænis mótmælendum sunnudag eftir sunnudag: Alexander Lukasjenko í Hvíta-Rússlandi og Vladimir Pútin í Rússlandi. Sameiginlegt skipbrot síðustu einræðisherranna í Evrópu er ekki endilega í sjónmáli en haldi þeir áfram að stjórna með því að siga lögreglu á almenning grafa þeir sjálfir eigin gröf.