Nauðsynlegt uppgjör
Það er hluti þess uppgjörs sem fór fram á
landsfundinum að farið verði í saumana á því hver var aðdragandi og raunveruleg ástæða þess.
Sögulegum landsfundi er lokið með góðum sigri Bjarna Benediktssonar í formannskjöri. Tóku 1712 manns þátt í kosningunni, Bjarni fékk 1010 atkvæði eða 59,4% og Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut 40,4%, 687 atkv. Auðir og ógildir seðlar voru 9 og aðrir fengu 3 atkvæði.
Horft yfir 44. landsfund sjálfsæðismanna í Laugardalshöll (mynd: Kristinn Karl Brynjarsson).
Það er hluti þess uppgjörs sem fór fram á
landsfundinum að farið verði í saumana á því hver var aðdragandi og raunveruleg ástæða
þess.
Tímasetningu á framboði nú gegn sitjandi formanni er ekki unnt að bera saman við formannskjörið þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni árið 1991. Þar var annars vegar borgarstjóri með um 60% borgarbúa að baki sér og hins vegar flokksformaður sem augljóst var að naut þverrandi fylgis innan eigin flokks, meðal annars vegna þess að forystumenn annarra flokka vildu ekki starfa með honum.
Í framboðsræðu sinni á landsfundinum sagði Guðlaugur Þór réttilega að annarra flokka menn ættu ekki að ráða hver væri formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta sjá allir, enda ráða þeir því ekki.
Sjálfstæðismenn vita hins vegar sem er, velji þeir formann sem annarra flokka menn forðast skaðar það flokkinn í veröld samsteypustjórna. Nægir eru til þess að vilja útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá ríkisstjórn þótt flokksmenn sjálfir standi ekki þannig að málum að það sé sjálfgefið.
Á þann veg hafa mál því miður þróast í borgarstjórn Reykjavíkur meðal annars vegna átaka við skipan framboðslista sem voru mjög augljós á liðnum vetri þegar Vörður, félag sjálfstæðismanna þar, átti fullt í fangi með að ákveða hvernig skipa skyldi listann. Ráðamenn innan félagsins vildu allt annað en opið prófkjör en urðu að lokum undir á almennum fundi. Hann var haldinn allt of seint til að takast mætti að blása nægum krafti í kosningabaráttuna.
Á landsfundinum núna skýrðist betur en áður að einmitt þarna er að finna grasrótina sem Guðlaugur Þór nefnir oft til sögunnar sér til stuðnings.
Hér á þessu vettvangi hefur áður verið vikið að þessum þáttum í flokksstarfi sjálfstæðismanna. Það er til dæmis ekki skynsamlegt að í Reykjavík sé eitt kjördæmisráð sjálfstæðismanna fyrir tvö kjördæmi þegar gengið er til þingkosninganna. Núverandi fyrirkomulag er ákall um átök og vandræði.
Á meðan stjórn Varðar á fullt í fangi með að ákveða aðferð við val á framboðslista er kannski ekki von til þess að innan hennar náist samstaða um nauðsynlegar skipulagsbreytingar á flokksstarfinu í Reykjavík. Rétti tíminn til þeirra er þó einmitt nú, strax að loknum landsfundi þegar þrjú ár eru til þingkosninga.
Hvatningin á landsfundi um að hugað verði að innra starfi flokksins til að styrkja hann út á við er hjáróma ef ekki er fyrst litið til flokksstarfsins í Reykjavík sem hefur löngum verið flaggskipið þótt svo sé ekki um þessar mundir.