20.12.2020 10:25

Náttúruhamfarir á Seyðisfirði

Vegna hamfaranna að þessu sinni sannaðist enn að almannavarnakerfið sem treystir á frumkvæði heimamanna og yfirstjórn ríkislögreglustjóra reyndist vel

Fyrir um 55 árum var ég sumarstarfsmaður í síldarbræðslunni Hafsíld á Seyðisfirði undir Bjólfinum, austan kaupstaðarins. Þar féllu tíð snjóflóð og á mbl.is eru nefnd flóð á verskmiðjuna 1967, 1975, 1985 og 1995. Ný hefur verið reistur snjóflóðavarnargarður í Bjólfinum og er hann kynntur á þennan hátt fyrir ferðamenn:

„Bjólfur er eitt af hinum tignarlegu fjöllum Seyðisfjarðar, 1085 m. að hæð. Ofarlega í fjallinu, í um 600 m., hæð eru snjóflóðavarnargarðar en frá þeim er stórfenglegt útsýni yfir Seyðisfjörð. Á sumrin er hægt að keyra að varnargörðunum á fjórhjóladrifnum bíl en það er einstakt tækifæri fyrir þá sem treysta sér ekki í fjallgöngur til þess að njóta útsýnisins.“

Þetta er rifjað upp hér þegar hörmulegar fréttir berast af aurskriðum í Seyðisfjarðarkaupstað sjálfum sem urðu til þess að allur bærinn var rýmdur í öryggisskyni,

Í samtali við mbl.is laugardaginn 19. desember sagði Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, að aldrei hefði mælst eins mikil úrkoma á Íslandi og dagana 14. til 18. desember á Seyðisfirði, samtals 570 mm, sé miðað við bráðabirgðatölur. Í meðalári rignir 860 mm í Reykjavík.

Við þetta urðu fjöllin við Seyðisfjörð gegnsósa og aur braust fram. „Enginn slasaðist í hamförunum en það er ljóst að tjónið er ekki síst menningarlegt, nokkur yfir hundrað ára gömul hús urðu fyrir skriðunni. Meðal annars Framhúsið svokallaða og tækniminjasafnið,“ segir á ruv.is.

Að þarna fari hús reist í upphafi síðustu aldar á skrið sýnir að um einstakt atvik er að ræða, allt annað en undir Bjólfinum sem lýst er hér að ofan. Hvort unnt verður að reisa mannvirki til að bægja slíkri hættu frá í framtíðinni kemur í ljós. Hitt er víst að stórátak hefur verið gert í rannsóknum og mannvirkjagerð til að meta hættur vegna ofanflóða. Fyrir skömmu var mikið rætt að fé sem ætlað hefði verið til mannvirkjanna með sérstökum ofanflóðasjóði hefði runnið annað. Fyrir það flæði hlýtur nú að hafa verið girt.

1247106Eggert Jóhannesson á mbl.is tók þessa mynd sem sýnir hvering aurskriðan fór yfir hluta Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Vegna hamfaranna að þessu sinni sannaðist enn að almannavarnakerfið sem treystir á frumkvæði heimamanna og yfirstjórn ríkislögreglustjóra reyndist vel. Fumlaust var gripið til allra ráðstafana sem taldar voru nauðsynlegar að mati færustu aðila. Nú reynir á viðlagakerfið sem komið var á fót eftir eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, nú Náttúruhamfaratrygging Íslands. Þangað snúa þeir sér sem urðu fyrir tjóni á Seyðisfirði.

Þegar þetta er skrifað að morgni sunnudags 20. desember ræða sérfræðingar næstu skref og hvenær Seyðfirðingum verður leyft að snúa að nýju heim til sín. Er þeim öllum óskað alls hins besta.