27.6.2022 12:09

NATO styrkist

Hafi einhver efast um gildi NATO fyrir fáeinum misserum gerir það enginn frjálshuga maður lengur. Sú staðreynd mun endurspeglast í ályktunum Madrid-fundarins.

Ríkisoddvitafundur NATO verður nú í vikunni í Madrid. Þegar lagt var á ráðin um dagskrá hans fyrir nokkrum misserum var talið að höfuðviðfangsefni fundarins yrði að móta NATO stefnu til framtíðar og endurnýja grunnstefnuskjal bandalagsins frá árinu 2010. Þá var gjarnan talað um NATO á þann veg að það væri varnarbandalag í leit að hlutverki. Donald Trump, þáv. Bandaríkjaforseti, hafði horn í síðu varnarsamstarfsins af því að Bandaríkjamenn stæðu undir of stórum hluta af kostnaði þess. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði bandalagið glíma við „heiladauða“.

Bæði Trump og Macron voru á röngu róli, hvor um sig gerði á sinn hátt hosur sínar grænar fyrir Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Þeir létu eins og með persónutöfrum sínum gætu þeir breytt hugarfari hans og gildismati.

Hafi eitthvað sannast sem örugglega rangt mat er það þetta viðhorf Trumps og Macrons til Pútins. Því miður var það útbreiddara og réð þar mestu dálæti Þjóðverja á viðskiptum við Rússa og orkukaupum þaðan. Fljótræði Angelu Merkel við að loka þýskum kjarnorkuverum og tengsl forvera hennar úr Jafnaðarmannaflokknum, Gerhards Schröders, við Pútin og rússneska orkusala gerðu Þjóðverja hættulega háða Rússum. Pútin hafði einnig búið um sig á Ítalíu með vinfengi við Berlusconi forsætisráðherra, lifir enn í þeim glæðum. Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra og málpípa Pútins, hefur til dæmis átt greiða leið inn í ítalska sjónvarpsþætti vegna fjölmiðlaveldis Berlusconis.

Í aðdraganda forseta- og þingkosninga í Frakklandi taldi Macron sér það enn til framdráttar að eiga löng símtöl við Pútín. Varð það til þess að ráðamenn í austurhluta Evrópu hreyfðu þeim sjónarmiðum opinberlega að aldrei hefði nokkrum leiðtoga ríkis í átökum við Adolf Hitler dottið í hug að eiga við hann samtöl í von um að snúa honum til betri vegar.

220602-backdrop-madrid-1997Æ fleiri samtímamenn sem aðeins þekkja hörmungar og hrylling síðari heimsstyrjaldarinnar af sögubókum segja að þá hefði aldrei dreymt um að verða vitni að öðrum Hitler í Evrópu. Er í raun unnt að líkja Pútin við nokkurn annan?

Þótt ýmsir vöruðu við viðhorfum og hernaðarmætti Pútins þrátt fyrir daður Trumps og annarra grunaði fáa að til þess kæmi að hann sýndi vígtennurnar á þann veg sem hann gerir núna.

Það yrði mjög til að efla norrænt öryggi að Erdogan Tyrklandsforseti félli frá fráleitum fyrirvara sínum vegna aðildar Finna og Svía að bandalaginu. Stjórnarhættir Erdogans eru á gráu svæði og hann er í hópi þeirra sem telja sér til framdráttar að skapa friðsömum þjóðum vandræði fái þeir tækifæri til þess. Vonir eru bundnar við að hann sjái að sér fái hann eitthvað fyrir sinn snúð á Madrid-fundinum.

Hafi einhver efast um gildi NATO fyrir fáeinum misserum gerir það enginn frjálshuga maður lengur. Sú staðreynd mun endurspeglast í ályktunum Madrid-fundarins.

Samstaðan meðal NATO-ríkjanna um að standa sameiginlega að gæslu eigin öryggis hefur styrkst og kröfurnar eru um að meira sé að gert í nafni bandalagsins en minna.