3.6.2023 10:36

NATO ræður framkvæmdastjóra

Raunar sameina Danir hagsmuni Norður-Ameríku og Evrópu í öryggismálum vegna ábyrgðar sinnar á öryggi og vörnum Grænlands.

Umræður í dönskum fjölmiðlum um hvort Mette Frederiksen forsætisráðherra sé líkleg til að taka við af Jens Stoltenberg í haust sem framkvæmdastjóri NATO ná nýjum hæðum nú um helgina.Þá heldur forsætisráðherrann til fundar við Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington mánudaginn 5. júní þegar Danir fagna þjóðhátíðardegi sínum.

Í vikunni sem er að líða hefur danski utanríkisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, þráfaldlega verið spurður um hvort hugsanlegt sé að kallað verði á Dana í æðstu stöðuna innan NATO.

„Hvers vegna ætti ég að segja eitthvað um það?“ svaraði hann blaðamanni Berlingske og einnig: „Ég ætla ekki að segja neitt um þetta. Það er ekki ég sem á að tilnefna neinn í þessa stöðu. Ég sit ekki í neinni ráðningarnefnd og ég veit ekki hverjir eru umsækjendur.“

Mette Frederiksen ýtir ekki sjálf undir neinar vangaveltur. Hún hafnar fullyrðingum um að hún sé umsækjandi og það gera aðrir sem nefndir hafa verið til sögunnar – þó ekki Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta.

24445620-spain-politics-diplomacy-nato-royalsMette Frederiksen, Joe Biden og Emmanuel Macron

Sé athygli beint að konum og forsætisráðherrum í Evrópu eru tvær nefndar, Mette Frederiksen og Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands.

Hvergi sést minnst á Katrínu Jakobsdóttur. Þótt hún hafi gengið Keflavíkurgöngur á sínum tíma ætti það ekki að útiloka hana – sem ungur og upprennandi stjórnmálamaður í norska Verkamannaflokknum var Jens Stoltenberg enginn sérstakur stuðningsmaður NATO. Á þeim tíma bönnuðu Norðmenn erlendar herstöðvar í landi sínu. Þeir gera það ekki lengur.

Matt Rutte, forsætisráðherra Hollands, er einnig nefndur til sögunnar og Chrystia Freeland, varaforsætisráðherra Kanda og fjármálaráðherra.

Talið er líklegt að reynt verði að komast að niðurstöðu um eftirmann Stoltenbergs fyrir ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna sem verður í Vilníus, Litháen, 11. og 12. júlí.

Tveir norrænir, fyrrverandi forsætisráðherrar hafa verið framkvæmdastjórar NATO frá 2009 þegar Daninn Anders Fogh Rasmussen varð það og síðan Norðmaðurinn Jens Stoltenberg frá 1. október 2014. Þegar hann stefnir að því að hætta 1. október 2023 hefur hann því setið 9 ár í embættinu, næst lengst á eftir Hollendingnum Joseph Luns sem sat í tæp 13 ár, frá 1971 til 1984. Þriðji í röðinni er Ítalinn Manlio Brosio sem sat í rúm 7 ár 1964 til 1971.

Framkvæmdastjóri NATO hefur aldrei komið frá Norður-Ameríku. Bandaríkjamaður þykir ekki koma til greina í embættið enda er yfirmaður öflugustu herstjórnar NATO, Evrópuherstjórnarinnar (SHAPE) í Mons í Belgíu jafnan bandarískur. Kann landafræðin að verða kanadíska ráðherranum hliðholl og einnig sú staðreynd að Kanada er norðurslóðaríki sem hefur mikla hagsmuni af því að halda Rússum í skefjum í Norður-Íshafi.

Raunar sameina Danir hagsmuni Norður-Ameríku og Evrópu í öryggismálum vegna ábyrgðar sinnar á öryggi og vörnum Grænlands. Stefna þeir einmitt að því að stórauka hernaðarlega hlutdeild sína á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Norðrið skiptir sífellt meira máli innan NATO!