NATO nýtur öflugs stuðnings
Hér á landi reyndist stuðningurinn 52% en andstaðan 14%. Spurt var: Ef þú gætir greitt atkvæði með eða á móti aðild lands þíns að NATO, hver yrði afstaða þín?
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnti ársskýrslu bandalagsins 2020 þriðjudaginn 16. mars. Þar kemur fram að um 62% aðspurðra í aðildarríkjunum 30 styðja aðild lands síns að NATO en 11% eru andvígir henni.
Hér á landi reyndist stuðningurinn 52% en andstaðan 14%. Spurt var: Ef þú gætir greitt atkvæði með eða á móti aðild lands þíns að NATO, hver yrði afstaða þín?
„Þessar tölur staðfesta mjög öflugan stuðning við NATO.“ sagði Jens Stoltenberg þegar hann kynnti skýrsluna. Leitað var viðhorfa hjá 28.635 fullorðnum í NATO-ríkjunum 30 frá 20. júlí til 8. ágúst 2020 og að auki hjá 28.517 á dögunum 5. til 23. nóvember 2020.
Í könnuninni kom einnig fram að 58% aðspurðra töldu að vegna NATO-aðildarinnar væru minni líkur en ella á að ráðist yrði á land þeirra. Aðeins 16% voru þessu ósammála.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO., kynnir ársskýrslu NATO 2020.
Stuðningur við NATO reyndist mestur í Eystrasaltslöndunum, Póllandi og öðrum löndum nálægt landamærum Rússlands. Meðal fjölmennra þjóða var stuðningur minnstur í Frakklandi, 50%, en 13% sögðust mundu greiða úrsögn úr NATO atkvæði.
Ekkert af þessu kemur á óvart. Afstaða Frakka til NATO hefur jafnan verið tvíræð. Á sjöunda áratugnum ákvað Charles de Gaulle Frakklandsforseti að loka höfuðstöðvum NATO í París og voru þær þá fluttar til Brussel. De Gaulle vildi árétta að Frakkar gætu staðið á eigin fótum í krafti eigin kjarnorkuherafla. Þeir voru þá eina kjarnorkuveldið innan þess sem nú er Evrópusambandið. Þetta breyttist með aðild Breta á áttunda áratugnum. Eftir úrsögn Breta úr ESB standa Frakkar að nýju sem eina kjarnorkuveldið í ESB.
Breska ríkisstjórnin birti nú í vikunni skýrslu um samræmda stefnu sína í utanríkis- og varnarmálum þar sem meðal annars er skýrt frá áformum um að falla frá frekari fækkun kjarnorkuvopna og hækka þakið á fjölda kjarnaodda í 260 í stað þess að lækka það í 180 eins ákveðið var árið 2010.
Bretar ætla einnig að beina athygli sinni í auknum mæli að ríkjum við Indlandshaf og Kyrrahaf og er þeim lýst sem „vaxtarbroddi“ veraldar. Þá er einnig boðað að Bretar ætli að einbeita sér meira að „kerfisbundnum áskorunum“ Kínverja.
Í liðinni viku ræddu þingmenn við Austurvöll NATO-málefni að frumkvæði VG-þingmannsins Kolbeins Proppé Óttarssonar svo að hann gæti viðrað andstöðu sína við aðild að bandalaginu.
Segja verður að miðað við alvöruna sem einkennir almennt umræður um öryggis- og varnarmál um þessar mundir voru VG-þingmenn og aðrir efasemdarmenn um NATO-aðild Íslands eins og úti á þekju. Þeir boða í raun ekki neinn annan kost í öryggismálum en rökstyðja mál sitt með fullyrðingum um að veröldin sé allt önnur en hún er.