1.11.2020 11:55

NATO-flotaforingi skoðar aðstæður

Allt sem þarna er sagt er í raun fyrirsjáanlegt þegar litið er til geópólitískra þátta, það er landafræði, herfræði og stjórnmála. Ferð flotaforingjans hingað sýnir á hvaða stig umræður og athuganir eru komnar.

Áhugamenn um öryggismál á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum hafa getað fylgst með því undanfarin misseri á vefsíðunni vardberg.is hvernigt NATO hefur stig af stigi beint aukinni athygli á Norður-Atlantshaf og norðurslóðir.

Ný NATO-herstjórn, Atlantshafsherstjórnin, er tekin til starfa í Norfolk í Virginiu-ríki í Bandaríkjunum og starfar þar við hlið yfirstjórnar Atlantshafsflota Bandaríkjanna, 2. flotans, sem hefur verið endurræstur í orðsins fyllstu merkingu.

201020-f-qp712-0534Bandaríski flugherinn var hér við loftrýmisgæslu á vegum NATO í október og birtist þessi mynd hans á vefsíðu landhelgisgæslunnar.

Þá lætur breski herinn sífellt meira að sér kveða á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum bæði á sjó og í lofti. Bretar hafa eignast langdrægar kafbátaleitarvélar að nýju, P-8-vélar. Bandaríkjamenn senda þær reglulega til æfinga og starfa hér á landi.

Á vefsíðunni visir.is sagði til dæmis laugardaginn 31. október frá því að Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, hefði daginn áður farið með bandaríska flotaforingjanum Robert Burke, yfirmanni bandaríska flotans í Evrópu og Afríku, um öryggissvæði Keflavíkurflugvallar. Þá hefðu sex bandarískar P-8-vélar verið þar vegna áhafnaskipta.

Robert Burke kom hingað til lands frá Kaupmannahöfn með viðkomu í Færeyjum og hann ætlar einnig að ræða við Grænlendinga í þágu NATO og bandaríska flotans.

Í fyrsta sinn í 33 ár lagðist bandarískur tundurspillir í fyrra við bryggju í Færeyjum. Átti skipið viðdvöl í Runavik á Austurey.

Þórir Guðmundsson, fréttastjóri fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, ræddi við Robert Burke þegar hann dvaldist hér og birti ítarlega frásögn af fundi þeirra eins og lesa má hér

Allt sem þarna er sagt er í raun fyrirsjáanlegt þegar litið er til geópólitískra þátta, það er landafræði, herfræði og stjórnmála. Ferð flotaforingjans hingað sýnir á hvaða stig umræður og athuganir eru komnar. Ekkert skref er stigið án viðræðna og sameiginlegrar niðurstöðu með stjórnvöldum þeirra landa sem hlut eiga að máli.

Um lið í þeirri þróun að virkja stjórnvöld í Færeyjum og á Grænlandi í viðræðum um öryggismál á norðurslóðum og töku ákvarðana um þau birti Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, ítarlega frétt sunnudaginn 1. nóvember og ræðir þar um samning Bandaríkjamanna og Grænlendinga vegna Thule-herstöðvarinnar, sjá hér.

Þetta er breyting frá því sem áður var. Við Íslendingar eigum nána samleið með Færeyingum og Grænlendingum í þessu efni eins og svo mörgum öðrum. Allar þjóðirnar hafa lagt og vilja leggja sitt af mörkum til að treysta varnarsamstarfið milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Sömu sögu er að segja um Norðurlöndin öll. Einn liður Bandaríkjastjórnar í öryggisgæslu á norðurslóðum er náið varnarmálasamstarf við Svía og Finna auk þess sem Norðmenn opna nú gamlar flotastöðvar og flugvelli í norðri til afnota fyrir bandamenn sína utan og innan NATO.

Íslendingar eru vanir að ræða varnarmál í ljósi tengsla við NATO og Bandaríkin, norræni þátturinn skiptir þó æ meira máli í þessu efni eins og rætt var á þingi Norðurlandaráðs í liðinni viku.