17.2.2021 9:47

Nafnleynd þjóðkirkjunnar

Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem stjórna þjóðkirkjunni á leið hennar til meira sjálfstæðis að glutra ekki niður þeim stuðningi við félagið sem kom til dæmis fram í könnuninni haustið 2012.

Séra Hreinn S. Hákonarson er ritstjóri Kirkjublaðsins.is (kirkjubladid.is). Í forystugrein þriðjudaginn 15. febrúar lýsir hann vonbrigðum yfir ákvörðun kirkjustjórnarinnar um að hætta að birta opinberlega nöfn umsækjenda um auglýst prestsembætti.

Hann minnir á að þjóðkirkjan sé fjölmennasta félag landsins með ríflega 230 þúdund félaga, rúmlega 60% þjóðarinnar. Félagsmenn kunni að meta lýðræðisleg vinnubrögð og opna stjórnsýslu og vilji vita „hvað er á seyði í félaginu og hvað standi til hvort heldur á grundvelli sóknar eða æðstu stjórnar kirkjunnar“.

Skref fyrir skref hefur þjóðkirkjan hlotið meira vald í eigin málum undanfarin ár og tengslin við ríkisvaldið hafa rofnað þótt skipan á stöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt stjórnarskrá hafi ekki breyst.

Í könnun á viðhorfi almennings um ákvæði í nýrri stjórnarskrá sem fór fram haustið 2012 var meðal annars spurt: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Skýr meirihluti vildi slíkt ákvæði í nýrri stjórnarskrá.

IdndexDómkirkjan í Reykjavík (mynd: Kirkjunet.is).

Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem stjórna þjóðkirkjunni á leið hennar til meira sjálfstæðis að glutra ekki niður þeim stuðningi við félagið sem kom til dæmis fram í könnuninni haustið 2012.

Sr. Hreinn S. Hákonarson segir marga gera athugasemdir við að ekki séu lengur birt nöfn umsækjenda um prestaköll eins og áður var. „Nú er bara auglýst og enginn veit neitt fyrr en tilkynnt er hver fékk starfið,“ segir hann.

Lengi tíðkaðist hjá ríkinu að meðal umsækjanda væri einhver kynntur sem „óskar nafnleyndar“. Nú geta menn ekki skotið sér á bakvið nafnleynd sé sótt um opinbert starf.

Í starfsreglum um val og veitingu prestsembætta stendur skýrum stöfum:

„Að skylt er, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur [um prestsembætti] er liðinn.“

Þessi regla hefur greinilega verið afnumin og sr. Hreinn S. Hákonarson segir að ekki sé gott „að aukið sjálfstæði kirkjunnar leiði til ógagnsæis í stjórnsýslunni“. Gagnsæi í starfsemi félags um smátt sem stórt sé „lykilatriði til að efla traust þess“.

Pétur G. Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir í Morgunblaðinu í dag að þjóðkirkjan telji sig ekki lengur heyra undir upplýsingalög. Hann lætur að því liggja að það kunni að brjóta í bága við lög um persónuvernd að birta nöfn umsækjenda um prestsembætti. Kirkjuþing fjalli um málið í mars.

Það er skref langt til baka ef þjóðkirkjufélagið ætlar að fjarlægjast félagsmenn sína með leyndarhyggju á borð við þá sem hér er lýst. Oft var tekist á í prestskosningum á óvæginn hátt. Þær eru úr sögunni en að stíga nú inn í myrkur og bera fyrir sig persónuvernd er of langt gengið.

Vegna þess að ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag komst stjórn þess upp með að birta ekki nöfn umsækjenda um embætti útvarpsstjóra. Ætlar þjóðkirkjufélagið að skipa sér á sama bekk þrátt fyrir stjórnarskrárverndina?