30.9.2018 9:54

Nafnalögin skotspónn vegna hugsjónaleysis

Réttmætt er að nota orðið „æsifréttamennsku“ í tengslum við mannanöfn og nafnalögin.

Óttar Guðmundsson læknir skrifar Bakþanka í Fréttablaðið í gær (29. september) og minnir á að í gamla daga hafi stjórnmálaflokkar oftast verið „stofnaðir í kringum einhverja hugmyndafræði“. Með tímanum hafi hugsjónaeldurinn kulnað og flokkar séu jafnvel stofnaðir í kringum metnað eins manns eða tímabundna stemmningu.

Slíkir flokkar taki upp furðuleg mál. Björt framtíð barðist af hörku fyrir breytingu á klukkunni og nafnalögunum. „Flokkurinn dó drottni sínum og menn héldu að þessi mál hefðu fylgt með,“ segir Óttar.

Nú hafi hins vegar aðrir flokkar í tilvistarkreppu ráðist á nafnalögin og leggi til að allir fái að heita hvað sem er. Þá segir:

 „Vilji foreldri skíra dóttur sína Niðursuðudós eða soninn Traktor væri það heimilt. Þessi tillaga er í takt við skoðanakannanir fjölmiðla sem hafa sýnt óvinsældir mannanafnanefndar. Hinir stefnulausu reyna nú að afla sér vinsælda með því að ráðast á nafnahefðina sem er óaðskiljanlegur hluti íslenskrar menningar. Hugmyndafræðingar Íslendingasagna sögðu að fjórðungi brygði til fósturs og fjórðungi til nafns. Flestöll nöfn í íslenskum nafnaskrám hafa ákveðna merkingu. Bæði gömlu norrænu nöfnin sem og biblíunöfnin þýddu eitthvað sem átti þátt sinn í að skapa persónuleika einstaklingsins. Það er sorglegt þegar stjórnmálamenn eltast við æsifréttamennsku til að móta pólitísk stefnumál. Maður getur huggað sig við að íslenska nafnahefðin hefur lifað af ótal árásir og tilraunir til að gera okkur alþjóðleg með hallærislegum ættarnöfnum eða skrítnum ónefnum. En ekki má gleyma því að sagan kennir okkur að flokkar sem seilast um hurð til lokunar í atkvæðaleit eru merktir feigðinni.“

Þarna er vel að orði komist og réttilega. Réttmætt er að nota orðið „æsifréttamennsku“ í tengslum við mannanöfn og nafnalögin, fréttir af ákvörðunum nefndarinnar benda oft til þess að hana megi flokka með þeim sem sæta fordæmingu fyrir mannréttindabrot.

Margsinnis hefur tekist sátt á stjórnmálavettvangi sem miðar að því að standa vörð um íslenska nafnahefð en aldrei líður á löngu þar til einhver litlu upphlaupsflokkanna telur sér hagkvæmt að rjúfa sáttina. Hingað til hefur það ekki gefið fyrirheit um bjarta pólitíska framtíð þótt mikið veður sé gert af vitlausu tillögunni í sumum fjölmiðlanna.