19.12.2020 10:32

Náðarhögg á þjóðgarð

Herbert segir að Steingrímur J. hafi veitt þessum málstað „náðarhöggið með því að steyta hnefana framan í þingsal og kjósendur“.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis og þingmaður VG, gerði talsmönnum ríkisrekins þjóðgarðs á miðhálendinu engan greiða með því að fara í gamla gírinn í ræðustól alþingis á dögunum, steyta hnefann og gera hróp að „örlitlum grenjandi minnihluta“ sem hann telur andvígan ríkisvæðingunni. Hann þolir andmæli almennt illa og því ver sem málstaður hans er verri.

779751Steingrímur J. Sigfússon (VG) lætur þingheim heyra það (mynd mbl.is).

Til að bera í bætifláka fyrir sig greip Steingrímur J. til þess í Morgunblaðinu í gær (18. desember) að mótmæla því sem hann taldi „rökleysu“ og „þvætting“ í grein Guðna Ágústssonar, fyrrv. landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins, sem gagnrýndi málflutning Steingríms J. í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. desember og sagði meðal annars:

„Nú skal reisa ríkisbáknið í fullri alvöru á þjóðlendunni miðhálendi Íslands. Taka stjórnina af sveitarfélögunum og bændum og fela umsjána sérfræðingum í tröllabúðum, í alvöruríkisstofnun í Reykjavík. Sósíalisminn skal byrja til fjalla í frelsinu sem bændur og smalar þeirra þekktu einir í þúsund ár.“

Það er von að Steingrímur J. treysti sér ekki í ritdeilu við „upphafinn alhæfingarstíl“ Guðna sem þó hitti svo í mark að þingforsetinn sá sig knúinn til andsvara og þá fyrst til að afsaka eigin stíl með þessum orðum:

„1. Örlítið um málnotkun. Samkvæmt mínu norðlenska tungutaki eða málvitund þýðir orðið grenjandi minnihluti = mikill minnihluti. Samanber einnig grenjandi stórhríð eða grenjandi rigning, sem sagt mikið af hvoru tveggja. Hefur ekkert með grát að gera og vonandi hefur Guðni ekki misskilið það.“

Vilji menn kynnast stílbrögðum er bent á þessar greinar Guðna og Steingríms J. en til þess að kynna sér efni málsins er nauðsynlegt að leita fanga víðar.

Í dag (19. desember) skrifar Herbert Hauksson, stjórnarformaður MOI, Mountaineers of Iceland, í stuttri grein í Morgunblaðinu: „Íslendingar vilja ekki láta taka af sér um 33.000 ferkílómetra af landi endurgjaldslaust og láta síðan selja sér inn á sama landið án allrar ábyrgðar.“

Herbert segir að Steingrímur J. hafi veitt þessum málstað „náðarhöggið með því að steyta hnefana framan í þingsal og kjósendur“.

Hér hefur áður verið bent á að í frumvarpinu um þjóðgarðinn er gert ráð fyrir 65 manna stjórn og ráðum (alþingismenn eru 63) til að sýsla með miðhálendið í nafni ríkisins. Um reynslu af öðrum síkum rekstri segir Herbert:

„Reksturinn á Vatnajökulsþjóðgarði getur ekki talist til fyrirmyndar. Það þurfti stjórnsýsluúttekt og Ríkisendurskoðun til að reyna að ná tökum á rekstri þjóðgarðsins. Þrátt fyrir það hefur stjórnendum ekki tekist að ná tökum á fjármálahliðinni eftir 12 rekstrarár. Þjóðgarðurinn hefur farið fram úr fjárheimildum hvað eftir annað.“

Hátimbrað stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðs er sett á laggirnar til að fela þann megintilgang frumvarpsins að svipta sveitarfélög valdi og því að „stjórn þjóðgarðsins hefur alltaf síðasta orðið, samkvæmt frumvarpinu og skýringum varðandi skipulagsmál,“ eins og Herbert Hauksson segir.