12.6.2021 15:32

Myndir úr hringferð

Þriðjudaginn 5. júní hófst hringferð um landið með fundum á Blönduósi, Akureyri, Svalbarði í Þistilfirði, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði í hádegi fimmtudag 7. júní. Ókum við um 1.100 km. leið til þátttöku í fundunum.

Fyrsti fundurinn undir kjörorðinu Ræktum Ísland! var haldinn í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 1. júní 2021. Daginn eftir var flogið til Ísafjarðar og fundað í Stjórnsýsluhúsinu þar.

Þriðjudaginn 5. júní hófst hringferð um landið með fundum á Blönduósi, Akureyri, Svalbarði í Þistilfirði, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði í hádegi fimmtudag 7. júní. Ókum við um 1.100 km. leið til þátttöku í fundunum.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundarboðandi bauð gesti velkomna og skýrði aðdraganda umræðuskjalsins Ræktum Ísland! sem við Hlédís H. Sveinsdóttir reifuðum síðan í stuttu máli. Þá tóku fundarmenn til máls og alls staðar urðu líflegar umræður. Lengsti fundurinn var í Valaskjálf á Egilsstöðum um það bil tveir tímar en annars staðar um 90 mínútur enda þurfti að halda vel á spöðunum til að tímaáætlanir stæðust.

Fundarsókn var góð hvort sem fundir voru í hádegi eða að kvöldi. Ummælum og athugasemdum var haldið til haga. Verður allt efnið til skoðunar ásamt umsögnum sem borist hafa á samráðsgátt stjórnarráðsins við lokagerð tillagna um landbúnaðarstefnu, Ræktum Ísland! er umræðuskjal um landbúnaðarstefnu 21. aldar.

Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.

ForystuhrutarForystufé í fræðasetrinu að Svalbarði í Þistilfirði.

Í gamla félagsheimilinu að Svalbarði í Þistilfirði er fræðasetur og sýning um forystufé. Í Norður-Þingeyjarsýslu er forystufé viðurkennt sem sérstakur fjárstofn. Daníel Hansen, forstöðumaður forystufjársetursins, var áður skólastjóri í Svalbarðsskóla og leiðsögumaður. Hann samdi árið 2010 við sveitarfélagið um afnot af húsinu og um svipað leyti var stofnað fræðafélag um forystufé, setrið var formlega opnað árið 2013. Daníel sagði að þakka bæri þeim í Norður-Þingeyjarsýslu sem héldu forystufjárstofninum við og notuðu hann áfram og nota enn. Undanfarið hefði blessunarlega orðið vakning í kringum þetta sérstæða fé.

IMG_3546Í safnbúð forystufjársetursins kennir ýmissa grasa.

NunnurÞegar ekið var norður og áð í Staðarskála voru þar nunnur með ungmenni á ferð. Þarna býr ein þeirra sig undir að verja mark í fótbolta.

IMG_3532Á sínum tíma gáfum við skírnarkjól minn í Heimilisiðnaðarsafnið (Textílsafnið) á Blönduósi. Þar má ganga að honum meðal sýningargripa.

HellisheidiHér eru þau sem höfðu atbeina að fundunum: Gísli Björnsson ráðherrabílstjóri,  Bryndís Eiríksdóttir, sérfræðingur í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, Kristján Þór Júlíusson ráðherra og Hlédís H. Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri. Myndin er tekin á Hellisheiði, milli Vopnafjarðar og Héraðs.

SprakkSkömmu eftir að efri myndin var tekin á Hellisheiði eystri kom í ljós að hægra afturhjól á ráðherrabílnum var sprungið, hafði höggvist í sundur á grófum malarveginum,. Þá voru góð ráð dýr þar sem nútímabílar eru ekki með varadekk. Á hinn bóginn er unnt að dæla vökva í dekk og á það að duga til næsta bæjar! Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sem fylgdi okkur eins og skugginn og lagði gott til mála á öllum fundunum, lagði þarna einnig sitt af mörkum með búnaði sem Hlédís er með í höndum og gekk hún fram af alkunnri röggsemi. Vökvanum var dælt í dekkið og bílnum ekið sem leið lá um 40 km á dekkjaverkstæði á Egilsstöðum þar sem dekkið var dæmt ónýtt. Hélt vökvinn þrýstingi vel í dekkinu á þessari leið þótt hann minnkaði. Á myndinni eru frá vinstri Sigurgeir, Hlédís, Gunnar og Gísli.

DjupivogurVið fálkaegg í Gleðivík: Björn, Gauti Jóhannesson, Kristján Þór Júlíusson.

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fyrrverandi sveitarstjóri Djúpavogs, tók á móti okkur á Djúpavogi og fræddi okkur um ótrúlegan vöxt fiskeldis og áhrifa hans á mannlífið. Við fórum í Gleðivík þar sem gamla Bræðslan er og Eggin í Gleðivík, útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson, einn fremsta listamann íslensku þjóðarinnar. Um er að ræða 34 eftirmyndir eggja jafn margra varpfugla í Djúpavogshreppi. Stærst er lómseggið, en lómurinn er einkennisfugl sveitarfélagsins. Við nýja stóra bryggju í Gleðivík standa nú yfir stórframkvæmdir tengdar laxeldinu en vinnsla aflans er á Djúpavogi.

Við Rut ókum áfram frá Höfn í Hornafirði að Kvoslæk í Fljótshlíð fimmtudaginn 10. júní eftir að hafa kvatt ferðafélagana sem flugu frá Höfn til borgarinnar.

IMG_3583Til að gera okkur dagamun gistum við að kvöldi 10. júní á 4 stjörnu hóteli í Öræfunum, Fosshotel Glacier. Hér er Rut við hornglugga í hótelinu sem er glæsilegt að allri gerð og þjónustu.

Jokullinn-og-gnupurinnLokamyndin  er af Lómagnúpi og Öræfajökli í sólarbirtu að morgni föstudags 11. júní.