Munaðarlaust Borgarskjalasafn
Borgarstjórn hefur ákveðið að svipta safnið húsnæðinu og menningarráðherrann lætur eins og það sé bara eftir að velja lóð því að starfshópur sé að taka til starfa.
Augljóst er af samtölum við Hrefnu Róbertsdóttur þjóðskjalavörð og Lilju D. Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag (9. mars) að hvorug þeirra veit sitt rjúkandi ráð þegar kemur að málefnum Borgarskjalasafns. Borgarstjórn samþykkti með 11 atkvæðum gegn 10 þriðjudaginn 7. mars að leggja skjalasafn sitt niður og afhenda það ríkinu.
Framsóknarmenn í borgarstjórn stóðu að þessari metnaðar- og menningarlausu samþykkt og framsóknarráðherra menningarmála reynir að láta eins og það sé bara eðlilegt að ríkið taki þessa 10 km af skjalaskápum í sína vörslu. Hún hefur þó ekki hugmynd um hvernig eigi að leysa málið, segist hafa kynnt ríkisstjórninni föstudaginn 3. mars hugmynd sína um starfshóp og þar yrði forsætisráðuneytið með í för (til hvers?).
Stórt skjalasafnahús á Melunum er alls ekki á næsta leiti. Forsíðumyndin af veiðimönnum við vök hæfir betur lýsingu á framtíð Borgarskjalasafnsins en villuljósið um nýtt hús.
Á forsíðu Morgunblaðsins er tilvísunarfrétt á samtölin við þjóðskjalavörð og menningarmálaráðherrann með fyrirsögninni: Sameinist í stóru safnahúsi. Með fréttinni fylgir lítil mynd þar sem horft er til háskólasvæðisins á Melunum. Menningarmálaráðherrann segir við blaðamanninn: „Við erum með Hús íslenskunnar og Landsbókasafnið og höfum verið að velta því upp að skoða þann möguleika að Þjóðskjalasafnið flytjist á það svæði.“
Þegar Þjóðarbókhlaðan var reist sameinuðust þar Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Þjóðarbókhlaðan var opnuð 1. desember 1994. Þá voru liðin 16 ár frá því að fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin og 38 ár frá því að sameiningu safnanna bar fyrst á góma. Árið 1974 færði þjóðin Þjóðarbókhlöðu sér að gjöf í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Stofnað var til sérstakrar skattheimtu vegna menningarbygginga til að fjármagna smíði Þjóðarbókhlöðunnar.
Árið 2001 þegar 30 ár voru liðin frá komu handritanna til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn. Við athöfn þegar tímamótanna var minnst kynnti þáverandi menntamálaráðherra hugmynd um sérstakt hús yfir handritin en þau voru geymd „til bráðabirgða“ í Árnagarði. Nú í ár verður sérhannað hús fyrir handritin opnað, 52 árum eftir komu þeirra til landsins.
Að láta í blaðaviðtali nú, tveimur dögum eftir að borgarstjórn ákvað að leggja niður Borgarskjalasafnið, eins og framtíð þess sé tryggð af því að á næsta leiti sé sameiginlegt hús yfir opinber skjalasöfn á Melunum er enn eitt dæmið um aðförina að safninu og framtíð þess.
Borgarstjórn hefur ákveðið að svipta safnið húsnæðinu og menningarráðherrann lætur eins og það sé bara eftir að velja lóð því að starfshópur sé að taka til starfa og hún ætli að ræða við þjóðskjalavörð eftir helgi. – Þjóðskjalavörður hefur ekkert annað í höndunum en einhverja greiningarskýrslu með sviðsmyndum frá KPMG án tímalínu og allrar útfærslu af hálfu borgarstjórnar.
Vinnubrögðin í þessu máli eru svo forkastanleg að engu tali tekur. Engu er líkara en af hálfu menningarráðherra og þjóðskjalavarðar sé litið á þessa eyðileggingu á merkri menningarstofnun og skjalasafni sem tækifæri til að baða sig í fjölmiðlaljósi án þess að hafa í raun nokkuð til málanna að leggja.
Borgarskjalasafnið er munaðarlaust, án húsnæðis og framtíðar. Hvílík skömm!