28.12.2018 9:51

Muldrað í ófærð

Að gera hljóðmynd með muldri er ekki til þess fallið að auðvelda neinum að skilja það sem sagt er, sama hve hljóðstyrkur viðtækisins er mikill.

Í Morgunblaðinu  birtist þessi frétt í morgun (28. desember):

„Ófærð II, hóf göngu sína á RÚV, annan dag jóla. Á samfélagsmiðlum og manna í millum hefur verið kvartað yfir óskýru hljóði í fyrsta þætti.

»Við sannreyndum hljóðið vel og vandlega fyrir og eftir útsendingu, bæði hljóðblöndun og útsendingarstyrk og fundum ekkert athugavert. Með öðrum orðum þá er allt eins og það á að vera,« segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, og bætir við að nær undantekningarlaust berist athugasemdir vegna hljóðs eða að samtöl heyrist ekki né skiljist nægjanlega vel þegar boðið er upp á leikið íslenskt efni.

»Það virðist sem fólk eigi erfiðara með að horfa á og skilja leikið efni án texta. Það sama gerist iðulega á Norðurlöndunum þegar boðið er upp á leikið norrænt efni án texta, þá berast reglulega athugasemdir vegna hljóðsins og að samtöl skiljist illa. DR hefur staðfest við okkur að þeir fái reglulega kvartanir yfir þessu í dönsku leiknu þáttaröðunum og þeirra skýring er að danskir áhorfendur séu einfaldlega óvanir því að horfa á leikið efni án texta, jafnvel þótt það sé á dönsku og eigi þar með að skiljast,« segir Skarphéðinn og bendir á að hægt sé að velja íslenskan texta á bls 888 í textavarpinu og íslenskan texta í spilara RÚV.“

Fyrir þá sem ekki vita er Ófærð II íslensk sjónvarpsmynd í 10 þáttum. Ófærð I var fumsýnd um jólin 2015. Kostaði 1,1 milljarð að framleiða hana, aflað var tekna með sölu hennar um heim allan og tókst þannig að fjármagna verkið. Ófærð II er örugglega ekki ódýrari og hún hefur einnig verið seld um heim allan.

Ofaerd2-1024x576Íslendingar skilja talað orð í myndinni en eins og fréttin að ofan ber með sér (og ég get staðfest) er erfitt að skilja sumt af því sem sagt er án texta.

Í fréttinni segir að sjónvarpsmenn hafi sannreynt hljóðið og einnig rætt málið við danska starfsbræður. Hvorugt dugar þó til að leysa vanda þeirra sem horfa og hlusta á myndina. Miðað við að suma leikarana er auðvelt að skilja en aðra ekki skal dregið í efa að hér sé einungis um hljóðtæknilegt vandamál að ræða. Þetta snertir einnig kröfuna sem gerð til framsagnar leikaranna. Að gera hljóðmynd með muldri er ekki til þess fallið að auðvelda neinum að skilja það sem sagt er, sama hve hljóðstyrkur viðtækisins er mikill.

Auðvelt er að nota 888-textun sé horft á þáttinn í beinni. Flóknara er þetta með „spilara RÚV“ og tímaflakkið. Það mætti útskýra það betur.