6.9.2023 9:25

Mótmælendur ekki fórnarlömb

Sérstakir talsmenn, erlendir og innlendir, við bryggjuna lýstu þeim sem fórnarlömbum lögreglu sem jafnvel sýndi rasíska tilburði.

Konurnar tvær, Elissa Bijou og Anahita Babaei, sem komu sér fyrir í tunnum í möstrum hvalbáta nr. 8 og 9 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn um klukkan 05.00 að morgni mánudagsins 4. september til að mótmæla hvalveiðum fóru úr tunnunum á þriðja tímanum síðdegis þriðjudaginn 5. september. Lögregla veitti þeim aðstoð við að fara niður á þilfar eftir um 30 stunda dvöl efst í möstrunum.

1436563Konurnar í tunnum hvalbátanna (mynd: mbl. Árni Sæberg).

Hvalveiðibátarnir lögðu úr höfn skömmu eftir að konurnar fóru frá borði. Var þeim siglt upp í Hvalfjörð þar sem skutlar voru settir um borð í þá. Veður ræður hvenær haldið verður til veiða. Í fyrra voru hvalveiðar stundaðar til 28. september.

Sagnfræðingurinn, leiðsögumaðurinn og gamalreyndi aktívistinn Stefán Pálsson sagði á Facebook að þetta væri „öflug mótmælaaðgerð“. Eftir ferð niður á höfn til að sjá konurnar í tunnunum sagði hann að aðgerðin væri þá „þegar gríðarlega vel heppnuð“. Tvær sterkar ungar konur hefðu „náð að setja strik í reikninginn hjá ríku og valdamiklu fyrirtæki og slá lögregluna út af laginu“.

Þá vék Stefán að því að krafa samtímans sé „að allir séu fórnarlömb og þess vegna virðist fókusinn hjá mörgum þeirra sem fjalla um mótmælin vera sá að konurnar í eftirlitstunnunum séu fórnarlömb lögregluofríkis, þyrstar, sveltar og í stórhættu“.

Þessi athugasemd átti vel við flutning frétta af atburðunum ekki síst á visir.is og í ríkisútvarpinu. Sérstakir talsmenn, erlendir og innlendir, við bryggjuna lýstu þeim sem fórnarlömbum lögreglu sem jafnvel sýndi rasíska tilburði.

Má þar nefna Valgerði Árnadóttur, talskonu Hvalavina, sem sagði við mbl.is þriðjudaginn 5. september að lögreglan hefði „skapað hættulegar aðstæður“ sem íranska konan Anahita þyrfti að búa við í mastrinu. Lögreglan hefði tekið af henni „það sem [væri] henni lífsnauðsynlegt til þess að lifa af“ hvorki meira né minna. Umtalið á jörðu niðri snerist mikið um bakpoka sem lögregla tók af Anahitu. „Það er ekki lögreglunnar að koma fólki í hættu myndi ég halda. Það er þeirra að gæta öryggis fólks og þeir eru ekki að gera það,“ sagði Valgerður. Lögreglan svaraði réttilega að hún hefði ekki komið neinum í hættu heldur konurnar sjálfar með því að fara upp í möstrin.

Lögreglan aðstoðaði konurnar við að komast úr tunnunum þegar þær höfðu fengið nóg. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, sagði að þær yrðu kærðar.

1436443Stuðningsmenn veifa til kvennanna í möstrum hvalbátanna. Fámenni lagði leið sína að bryggjunni sem lögreglan lokaði. (mynd: mbl. Kristinn Magnússon).

Stefán Pálsson sagðist ekki skilja þá nálgun að gera mótmælendur að fórnarlömbum:

„Mér finnst almennt betra í andófsmenningu að fagna sigrum en kveinka sér undan ósigrum. Því ætla ég rétt að vona að mótmælendurnir séu að plana hvernig þær geti lokið aðgerðunum með sem mestum glans og á sínum forsendum – t. d. með því að klifra niður í beinni útsendingu í fréttatíma og láta handtaka sig fyrir framan tökuvélarnar frekar en að þurfa að gefast upp úrvinda um miðja nótt.“

Þær gáfust upp um miðjan dag og var ekið á brott af lögreglu sem hlúði að þeim. Stuðningskona við bryggjuna fór inn á bannsvæði og var handtekin.