Moðsuða Höllu vegna Úkraínu
Áttar hún sig í raun ekki á um hvað er barist í Úkraínu? Það er Íslendingum í hag að leggja þeim öflugt liðsinni sem hætta þar lífi sínu fyrir grunngildi íslensks samfélags.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (24. maí) er sagt frá forsetafundi blaðsins með frambjóðandanum Höllu Tómasdóttur í Reykjanesbæ 23. maí og þar má lesa:
„Hún [Halla] skýrði jafnframt fyrri orð sín um hlutleysi Íslands og kvaðst ekki andvíg veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. En hún væri friðarsinni og vildi ekki veita Úkraínu aðstoð sem gagnaðist í hernaði; Íslendingar gætu stutt Úkraínumenn með ýmsum öðrum hætti.“
Í frétt inni í blaðinu af fundinum kemur fram að Halla er ekki hlynnt því að íslensk stjórnvöld styðji vopnakaup til Úkraínu til varnar gegn innrás Rússa. Hún vilji frekar að Ísland fjármagni sáraumbúðir frá Kerecis og stoðtæki frá Össuri. Þá segist hún hlynnt því að Íslendingar taki „alltaf afstöðu með friði“ og nýti öll sín áhrif til þess að fara fyrir friði. Við séum í varnarbandalagi, ekki sóknarbandalagi með Atlantshafsbandalaginu og við getum verið þátttakendur í því og vestrænu samstarfi án þess að leggja fé til vopnakaupa.
Þegar Stefán Einar Stefánsson blaðamaður benti Höllu á að það þyrfti vopn til að verjast Rússum svaraði hún: „Við getum verið litla þjóðin sem lyftir grettistaki í heiminum.“
Allt lýsir þetta ótrúlegu óraunsæi frambjóðandans og röngum hugmyndum um það sem gerist umhverfis okkur og hver viðbrögð nágrannaþjóða eru. Að draga skil á milli þess að vera friðarsinni og virkrar þátttöku Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu er blekking.
Halla Tómasdóttir hefur frá árinu 2018 starfað fyrir alþjóðasamtök forystumanna í viðskiptaheiminum, The B Team. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í apríl 2022, um tveimur mánuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu, þar sem sagði meðal annars:
„Nú er ekki tíminn fyrir hlutleysi. Innrás Rússa er tilefnislaus og óásættanleg. Sífellt meiri vitneskja berst um grimmdarverk rússneskra hermanna gegn almennum borgurum í Úkraínu, þar á meðal konum og börnum. [...]
Á tímum sem þessum – tímum þegar heimurinn hefur orðið fyrir áfalli og höfðað er til sameiginlegrar mannúðar okkar – ber trúverðugum leiðtogum siðferðisleg skylda til að sýna forystu. [...]
Það er réttmætt að lýsa fordæmingu. Það er skynsamlegt að forðast samsekt. Það er gott að reyna og bæta úr hræðilegu ástandi.
Við getum þó gengið lengra; gildismat okkar krefst þess. Fyrirtæki hafa hlutverki að gegna við að leggja stein í götu þeirra sem hefja vopnuð átök að tilefnislausu svo ekkert ríki dirfist að taka slíka áhættu aftur.“
Það er furðulegt að forsetaframbjóðandi sem telur sér réttilega til ágætis að starfa fyrir alþjóðasamtök sem álykta þannig um innrásina í Úkraínu skuli nú rúmum tveimur árum síðar boða þá moðsuðu sem Halla Tómasdóttir ber á borð þegar rætt er við hana um Úkraínu og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Áttar hún sig í raun ekki á um hvað er barist í Úkraínu? Það er Íslendingum í hag að leggja þeim öflugt liðsinni sem hætta þar lífi sínu fyrir grunngildi íslensks samfélags, án þeirra væru hér ekki frjálsar forsetakosningar.