9.11.2022 9:20

Mjótt á munum í Washington

„Reglan“ er að flokkur forsetans eigi undir högg að sækja í þessum kosningum. Fyrirstaða Bidens og hans manna er öflugri en við var búist.

Úrslit kosninganna í Bandaríkjunum í gær (8. nóv.) liggja ekki fyrur þegar þetta er skrifað en ljóst er að „rauða bylgjan“, það er sigur repúblikana í kosningunum er ekki eins öflug og spáð var.

Þetta eru fyrstu þingkosningarnar frá því að Joe Biden var kjörinn forseti fyrir tveimur árum. „Reglan“ er að flokkur forsetans eigi undir högg að sækja í þessum kosningum. Fyrirstaða Bidens og hans manna er öflugri en við var búist.

Athygli beinist mjög að innri málum repúblikana, það er hvernig þeim vegnar sem notið hafa velvilja og stuðnings Donalds Trumps í prófkjörum innan flokksins eða á annan hátt í aðdraganda kosninganna. Stjórnmálaskýrendur eru varkárir í svörum þegar umræður beinast að þessu. Þó liggur í loftinu að Trump hafi ekki vegnað eins vel og hann talaði og vonaði. Það segir í sjálfu sér ekki mikið því að maðurinn er svo uppfullur af sjálfum sér að hálfa væri nóg. Helsta keppikefli hans er enn að telja fólki trú um að kosningasigrinum hafi verið stolið af sér með svindli fyrir tveimur árum.

Istockphoto-1341268812-170667aBandaríkjastjórn, forsetinn og þingið, hafa stutt mjög við bakið á Úkraínumönnum og forseta þeirra Volodymyr Zelenskíj í stríðinu við Rússa. Hefur nú enn einu sinni sannast hve Evrópuþjóðir eiga mikið undir góðri og náinni samvinnu við Bandaríkjamenn á hættustund.

Í tilefni kosninganna í gær er víða spurt hvort breyting á meirihluta í Bandaríkjaþingi hafi áhrif á afstöðu bandarískra stjórnvalda í Úkraínustríðinu.

Zelenskíj hvetur Bandaríkjamenn eindregið til að standa „óhagganlega saman“ að baki þjóð sinni þar til „komið verði á friði að nýju“. Hann þakkaði Biden forseta, báðum flokkum á þingi og sérhverjum íbúa Bandaríkjanna fyrir ómetanlegan efnahagslegan, hernaðarlegan og diplómatískan stuðning frá því að ráðist var inn í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Hvernig staðið verður að málum á nýkjörnu Bandaríkjaþingi skýrist betur síðar. Það hefur þó mátt greina af því sem ýmsir repúblikanar hafa sagt að þeir hafi fyrirvara á hve langt Bandaríkjamenn eigi að ganga í stuðningi sínum við Úkraínumenn.

Kevin McCarthy (20. kjördæmi í Kaliforníu) sem líklegt er að leiði repúblikana í fulltrúadeildinni áréttaði mánudaginn 7. nóv. á CNN að hann vildi ekki afhenda Úkraínumenn „auðan tékka“ fengi flokkur sinn meirihluta í deildinni.

Mitch McConnell (frá Kentucky), leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, er hins vegar þeirrar skoðunar að hraða eigi öllum stuðningi við Úkraínumenn og sýna eigi frumkvæði í því efni á þinginu.

Sjáfur segir Joe Biden að um „óhagganlegan“ stuðning Bandaríkjamanna verði að ræða hvernig sem kosningarnar fari.